29.10.2021

Samkeppniseftirlitið gerir ekki athugasemdir við samruna Marel og Völku

  • Marelvalka

Samkeppniseftirlitið hefur haft til skoðunar samruna Marel Iceland ehf., dótturfélags Marel hf., og Völku ehf. Marel og Valka starfa bæði við framleiðslu og þjónustu búnaðar sem notaður er til margra þátta matvælavinnslu. Aðalstarfsemi Marel felst í framleiðslu véla til vinnslu kjöts, alifugla og fisks. Starfsemi Völku er á sviði framleiðslu véla til fiskvinnslu.

Rannsókn málsins var umfangsmikil en við meðferð þess leitaði Samkeppniseftirlitið meðal annars sjónarmiða bæði keppinauta og viðskiptavina samrunafyrirtækjanna. Samkeppniseftirlitinu bárust í framhaldinu rökstuddar athugasemdir við samrunann frá á annan tug umsagnaraðila frá Íslandi og löndum í Evrópu, Norður-Ameríku og Eyjaálfu. Samandregið beindust athugasemdir einkum að því að samrunaaðilar hafa báðir yfir að ráða tækni við vatnsskurð og stýringu vatnsskurðar sem vernduð er með einkaleyfum og skapar samrunaaðilum verulegt samkeppnisforskot, að mati margra umsagnaraðila. Auk þess töldu sumir keppinautar samrunaaðila að sameinað fyrirtæki myndi ná mjög sterkri stöðu í Evrópu á sviði tækja og búnaðar til frekari vinnslu á fiski.

Í ljósi þessara athugasemda taldi Samkeppniseftirlitið nauðsynlegt að taka möguleg skaðleg áhrif samrunans á samkeppni til ítarlegrar skoðunar. Í tengslum við þá rannsókn átti eftirlitið í samstarfi og samskiptum við nokkrar systurstofnanir sínar í Evrópu. Í kjölfar rannsóknarinnar er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að ekki sé tilefni til íhlutunar vegna samrunans, meðal annars með hliðsjón af því að samrunaaðilar munu áfram njóta umtalsverðs samkeppnislegs aðhalds af hálfu sterkra alþjóðlegra keppinauta í kjölfar samrunans.

Nánari umfjöllun er að finna í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 41/2021.