
Samkeppniseftirlitinu hefur borist tilkynning um
breytingu á yfirráðum í Mílu hf. Í viðskiptunum felst að AB 855 ehf., sem er
dótturfélag tveggja sjóða í rekstri Ardian France SA, kaupir Mílu af Símanum
hf.
Samkvæmt samrunaaðilum felst í viðskiptunum breyting á
yfirráðum í Mílu en ekki tilkynningarskyldur samruni í skilningi 1. mgr.
17. gr. a samkeppnislaga, þar sem Ardian hafi ekki haft neina starfsemi á
Íslandi og veltuskilyrði fyrir tilkynningaskyldu því ekki uppfyllt.
Samkvæmt 3. mgr. 17. gr. b samkeppnislaga getur
Samkeppniseftirlitið kallað eftir samrunatilkynningu vegna samruna sem ekki
uppfyllir veltuskilyrði laganna að tveimur skilyrðum uppfylltum: Annars
vegar að sameiginleg heildarvelta samrunaaðila sé meiri en 1,5 ma.kr. og hins
vegar að verulegar líkur séu á því að samruninn geti dregið umtalsvert úr
virkri samkeppni.
Til þess að leggja mat á hvort tilefni sé til þess að
kalla eftir samrunatilkynningu vegna kaupa Ardian á Mílu óskar
Samkeppniseftirlitið eftir sjónarmiðum þeirra hagsmunaaðila sem telja málið sig
varða. Þess er óskað að sjónarmið berist eigi síðar en þriðjudaginn 9.
nóvember nk. á netfangið magnus@samkeppni.is.
Bréf samrunaaðila til Samkeppniseftirlitsins, dags. 1.nóvember 2021.
Bakgrunnsupplýsingar:
Samkvæmt tilkynningunni er Ardian eitt stærsta
sjóðastýringarfyrirtæki Evrópu og hefur reynslu af innviðafjárfestingu til
langs tíma. Höfuðstöðvar félagsins eru í París í Frakklandi. Samkvæmt
upplýsingum Ardian mun enginn aðili fara með meira en 25% eignarhald í
viðkomandi sjóðum sem kaupa Mílu.
Míla er dótturfélag Símans, stærsta fjarskiptafyrirtækis
landsins. Míla er heildsölufyrirtæki á fjarskiptamarkaði og felst kjarnastarfsemi
þess í að byggja upp og reka innviði fjarskipta á landsvísu.
"*" indicates required fields