9.6.2021

Samkeppniseftirlitið óskar eftir sjónarmiðum um samkeppnisvísa

Samkeppniseftirlitið hefur í dag gefið út umræðuskjal þar sem birtir eru valdir samkeppnisvísar (e. competition indicators) sem geta gefið vísbendingar um hvernig samkeppnisaðstæðum er háttað hér á landi. Þar sem við á er staða Íslands borin saman við níu samanburðarlönd. Horft er sérstaklega til samkeppnisvísa sem gefa vísbendingar um upplifun íslenskra neytenda og stjórnenda fyrirtækja um samkeppnisvirkni á ýmsum mörkuðum, samþjöppun á völdum mörkuðum og um hindranir sem hægt er að ryðja úr vegi til þess að auka samkeppni og þar með stuðla að aukinni framleiðni og nýsköpun.

Þegar litið er til þeirra samkeppnisvísa sem birtir eru í umræðuskjalinu þá er það áhyggjuefni að um þriðjungur stjórnenda íslenskra fyrirtækja skynji að samráð eða misnotkun á markaðsráðandi stöðu sé til staðar á þeim mörkuðum sem viðkomandi fyrirtæki starfa auk þess sem umfang markaðsyfirráða (e. market dominance) er meira hér en í öllum samanburðarlöndunum.

Aðgangshindranir eru einnig miklar í alþjóðlegum samanburði. Ísland er í 7.-10. sæti af 10 þegar horft er til viðskiptahindrana í milliríkjaviðskiptum, reglubyrði þvert á hagkerfið, reglubyrði í smásöluverslun og þann tíma sem það tekur að stofna fyrirtæki. Reglubyrði í netgreinum stendur þó betur, en þar er Ísland í 4. sæti.

Á komandi mánuðum hyggst Samkeppniseftirlitið birta þessa vísa á vefsíðu sinni og uppfæra með reglubundnum hætti til þess að auðvelda neytendum, fyrirtækjum, stjórnvöldum, Samkeppniseftirlitinu, fjölmiðlum og öðrum haghöfum aðgengi að upplýsingum sem nýtast í umræðu um það hvernig samkeppni er háttað á íslenskum mörkuðum.

Með þessu umræðuskjali vill Samkeppniseftirlitið gefa hagaðilum tækifæri til þess að hafa áhrif á hvaða samkeppnisvísum Samkeppniseftirlitið mun miðla á komandi árum. Er óskað eftir að sjónarmið um efni umræðuskjalsins berist Samkeppniseftirlitinu eigi síðar en 23. júní 2021 með bréfpósti eða með tölvupósti á netfangið samkeppni@samkeppni.is.

Valur Þráinsson, aðalhagfræðingur:

„Það er hagur íslenskra neytenda og atvinnulífs að virk samkeppni ríki á mörkuðum hér á landi og aðgangur að þeim sé sem greiðastur. Alþjóðlegur samanburður virðist benda til þess að aðgangshindranir að íslenskum mörkuðum séu of miklar og að auki er það áhyggjuefni að um þriðjungur stjórnenda íslenskra fyrirtækja verði var við samráð eða misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Með reglulegri útgáfu samkeppnisvísa vonast Samkeppniseftirlitið til þess að stjórnvöld, fjölmiðlar, hagsmunasamtök og aðrir haghafar hafi betri yfirsýn yfir samkeppnisvirkni á íslenskum mörkuðum sem auðveldi greiningu á þeim úrbótatækifærum sem eru til staðar .“