11.3.2021

Samkeppniseftirlitið óskar eftir sjónarmiðum vegna sameiginlegra yfirráða Alfa hf., SF VII ehf., Eldeyjar Holdco ehf. yfir Kynnisferðum ehf., Eldey THL hf., og dótturfélögum þeirra

Samkeppniseftirlitinu var þann 16. febrúar tilkynnt um fyrirhuguð kaup BBL 144 ehf. (hér eftir „BBL“) og Eldeyjar Holding ehf. (hér eftir „Eldey HoldCo“) og fl. á hlutafé í Eldey TLH hf. Arcanum Fjallaleiðsögumönnum ehf. og Logakór ehf., sbr. meðfylgjandi samrunaskrá. BBL er einkahlutafélag sem sérstaklega var stofnað í tengslum við viðskiptin til þess að kaupa allt hlutafé í Kynnisferðum og Eldey auk þess að kaupa minniháttar hlut beint í Arcanum og Logakór. Tilgangur Eldeyjar HoldCo er fyrst og fremst að halda á hlutum í BBL í kjölfar viðskiptanna en auk þess mun Eldey HoldCo halda á hlutum í Norðursiglingu hf. og tilteknum skuldabréfum og öðrum kröfuréttindum á hendur núverandi dótturfélögum Eldeyjar. Eldey HoldCo er í eigu fimm lífeyrissjóða, Íslandsbanka hf., Íslenskrar fjárfestingar ehf. og annarra fjárfesta sem fjárfestu í félaginu í gegnum einkabankaþjónustu Íslandsbanka hf.

Samkeppniseftirlitið hefur það hlutverk samkvæmt samkeppnislögum að rannsaka samruna og ber í því sambandi að leggja mat á það hvort samruni fyrirtækja raski samkeppni með umtalsverðum hætti og skaði þar með hagsmuni almennings eða atvinnulífs. Við mat á áhrifum samruna aflar Samkeppniseftirlitið gagna frá aðilum sem eftir atvikum geta verið viðskiptavinir eða keppinautar samrunaaðila, eða tengst mörkuðum málsins á einhvern annan hátt.

Samkeppniseftirlitið veitir hér með þeim sem telja sig hafa hagsmuna að gæta vegna samrunans færi á því að koma að sjónarmiðum vegna hans. Þess er óskað að umsagnir vegna samrunans berist eigi síðar en kl. 16:00, þann 16. mars nk. á netfangið aldis.s.bjarnhedinsdottir@samkeppni.is.

Hjálagt:

  Hér er umsagnarbeiðnin 

  Hér er samrunaskrá án trúnaðar