23.6.2021

Samkeppniseftirlitið óskar eftir umsögnum vegna samruna Nova, Sýnar og ITP

Samkeppniseftirlitið vekur athygli á því að umsagnarferli vegna samruna Nova, Sýnar og ITP er hafið. Samkeppniseftirlitinu hefur borist tilkynning um samruna vegna kaupa ITP ehf. á öllu hlutafé í félögunum S8108 ehf. og Nova Sendastaðir ehf. Félögin sem eru seld eru nýleg eignarhaldsfélög Nova hf. og Sýnar ehf. um eignarhald á öllum óvirkum fjarskiptainnviðum félaganna sem teljast til stærri sendastaða (e. macro sites), og samanstanda af turnum og turnum/möstrum á þökum bygginga. Hin keyptu félög eru því eigendur samtals 367 sendastaða sem áður voru í eigu Sýnar hf. og Nova hf., eða um 200 staðir í eigu þess fyrrnefnda og 167 staðir í eigu þess síðarnefnda. Samkvæmt samrunaskrá tekur samruninn þó aðeins til óvirkra innviða og ekki til neins virks sendibúnaðar, t.d. kapla eða loftneta.

Að sögn samrunaaðila er ITP ehf. eignarhaldsfélag sem sérstaklega var stofnað í tengslum við samrunann. Er félagið undir endanlegum yfirráðum Colony Capital sem er alþjóðlegt fasteigna- og fjárfestingafélag sem skráð er á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum. Digital Colony Partners (Cayman) LP, sem lýtur yfirráðum Colony Capital, er síðan sjóður í stýringu sem einbeitir sér að fjárfestingum í stafrænum innviðum, svo sem fjarskiptamöstrum, gagnaverum, smásellunetum (e. small cell networks) og kapalnetum (e. fibre networks) og þar á meðal óvirkum fjarskiptainnviðum.

Tilgangur ITP ehf. sé því að eiga S8108 ehf. og Nova Sendastaðir ehf. og veita þjónustu í gegnum þessi tvö félög sem í samkeppnisrétti hefur verið skilgreind sem aðstöðuleiga (e. hospitality services) á óvirkum fjarskiptainnviðum. Komi samruninn til framkvæmdar muni Sýn hf. og Nova hf. kaupa þjónustu af ITP sem lýtur að nýtingu hinna óvirku innviða sem seldir eru samkvæmt samrunaskrá. Virðist það því vera markmið samrunans að setja á fót nýtt og sjálfstætt turnfélag sem þjónustuaðila fyrir aðstöðuleigu á óvirkum fjarskiptainnviðum á Íslandi, sem muni m.a. koma samkeppni og farnetsrekendum til góða að mati samrunaaðila.

Þess má geta að Sýn hf. og Nova hf. hafa undanfarin ár rekið saman dreifikerfi sitt fyrir farsíma, sbr. ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 14/2015, Undanþága Vodafone og Nova vegna samstarfs um rekstur dreifikerfis.

Hér má nálgast samrunaskrá án trúnaðarupplýsinga. Markaðsaðilum er hér með gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum um samrunann, svo sem um áhrif samrunans á fyrirtæki þitt og/eða á samkeppni á fjarskipta- og sjónvarpsmörkuðum.

Er þess óskað að umsagnir berist Samkeppniseftirlitinu eigi síðar en 1. júlí nk. á netfangið samkeppni@samkeppni.is - merkt „Samruni ITP ehf., Nova hf. og Sýn hf.“