19.4.2023

Samkeppniseftirlitið óskar sjónarmiða vegna greiningar á ábata af íhlutun eftirlitsins

Sjónarmið berist eigi síðar en 12. maí 2023

  • Greining-a-abata-af-ihlutun-2-

Síðustu misseri hefur Samkeppniseftirlitið unnið að því að greina reiknaðan ábata vegna íhlutunar eftirlitsins á sjálfstæðan hátt. Í tengslum við þá vinnu hefur Samkeppniseftirlitið birt umræðuskjal með lýsingu á þeirri aðferðafræði og forsendum sem Samkeppniseftirlitið hyggst notast við til að leggja mat á ábata af íhlutun eftirlitsins. Hagaðilum og öðrum áhugasömum gefst nú tækifæri til þess að koma á framfæri sjónarmiðum.

Greining þessi styðst við viðmið OECD, Guide for helping competition authorities assess the expected impact of their activities. Byggja viðmiðin á vinnu OECD, fræðimanna, samkeppnisyfirvalda í ýmsum aðildarlandanna og fyrri rannsóknum á efnahagslegum áhrifum samkeppniseftirlits. Einnig er byggt á þeirri aðferðafræði sem samkeppnisdeild framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins notast við í sambærilegri greiningu.

Samkeppniseftirlitið hefur áður látið greina ábata af starfsemi sinni, en nú er fyrirhugað að formfesta matið betur og útfæra það með nákvæmari hætti. Er ráðgert að birta niðurstöður ábatamats árlega.

Í Fjármálaáætlun 2024-2028 er sett fram markmið um að reiknaður árlegur ábati vegna ákvarðana Samkeppniseftirlitsins skuli að meðaltali nema 0,5% af vergri landsframleiðslu á undanliðnum 10 árum. Þetta markmið hefur verið óbreytt frá árinu 2018.

Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á störfum Samkeppniseftirlitsins, sem birt var í ágúst 2022, var lögð áhersla á að reglubundið mat á ábata af starfsemi Samkeppniseftirlitsins verði nýtt við skilgreiningu áherslna, markmiða og árangursmælikvarða til framtíðar.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins beitir aðferðum byggðum á viðmiðum OECD til að meta ábata af íhlutun samkeppnisdeildar framkvæmdastjórnarinnar. Framkvæmdastjórn ESB metur það svo að beinn ábati af íhlutunum samkeppnisdeildarinnar hafi á 10 ára tímabilinu 2012 til 2021 numið á bilinu 12 til 21 milljarði evra á ári hverju, eða sem nemur um það bil tvö til þrjú þúsund milljörðum króna.

Eins og framan greinir birtir Samkeppniseftirlitið á þessu stigi vinnunnar umræðuskjal þar sem hagaðilum og öðrum áhugasömum gefst tækifæri til þess að koma að sjónarmiðum við þá aðferðafræði sem stofnunin hyggst beita við matið.

Er óskað eftir að sjónarmið um aðferðafræðina berist Samkeppniseftirlitinu eigi síðar 12. maí nk. með bréfpósti eða með tölvupósti á netfangið samkeppni@samkeppni.is.

Fylgigagn: