23.6.2021

Samkeppnismál og sjónvarpsréttindi

Síminn hefur á síðustu tveimur vikum sent Samkeppniseftirlitinu tvö bréf sem varða heildsölu og útboð sýningarréttar vegna Ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta.

Samkeppniseftirlitið hefur nú svarað erindum Símans, með bréfi dagsettu í dag. Í bréfinu er reifuð fyrri umfjöllun samkeppnisyfirvalda og Símans um efniskaup, sýningarrétt og útsendingar á Enska boltanum. Þá er fjallað um skyldur fyrirtækja og hlutverk samkeppnisyfirvalda til að leysa úr málum af þessu tagi.

Rétt þykir að birta bréfið á vef eftirlitsins, í ljósi þeirra sjónarmiða sem fram koma í bréfum Símans og í ljósi þess að nú er að hefjast útboð á sýningarrétti fyrir ensku úrvalsdeildina í fótbolta hér á landi fyrir árin 2022 – 2028. Efni bréfsins kann því að eiga erindi við fleiri aðila á markaðnum. Í bréfinu felst leiðbeining til fyrirtækja á markaðnum.

Í bréfi eftirlitsins kemur m.a. fram að Síminn hafi um langt skeið haft aðgang að ítarlegri umfjöllun Samkeppniseftirlitsins í fyrri úrlausnum um efniskaup, sýningarrétt og útsendingar á Enska boltanum. Eins er Símanum vel kunnugt um ábyrgð fyrirtækisins á því að tryggja að samkeppnislögum sé fylgt. Þá er samkeppnisyfirvöldum ekki ætlað að bregðast við erindum af þessu tagi með bindandi fyrirframúrskurðum.

Með bréfinu er jafnframt leiðrétt sú fullyrðing Símans að af umfjöllun Samkeppniseftirlitsins megi leiða að engin heildsölukvöð sé til staðar vegna Ensku úrvalsdeildarinnar og þar af leiðandi sé Símanum eða öðrum aðilum ekki skylt að afhenda útsendingar eða aðrar áskriftir að Ensku úrvalsdeildinni til keppinauta félagsins í heildsölu. Hið rétta er að slík almenn afstaða liggur ekki fyrir, enda er hún háð atvikum hverju sinni. Geta bréf Símans ekki leitt til málsmeðferðar sem gæti endað með slíkri úrlausn eða afstöðu á þessu stigi.

Að lokum er í bréfi Símans frá 9. júní sl. vísað til þess að félagið telji óhjákvæmilegt að aðrir hugsanlegir bjóðendur verði upplýstir um óvissu sem felist í útboðinu áður en til þess kemur. Í bréfi eftirlitsins er félaginu bent á að upplýsingaskipti keppinauta vegna útboða á vörum eða þjónustu geta falið í sér alvarleg brot á 10. gr. samkeppnislaga um bann við samráði keppinauta. Vegna þessara sjónarmiða telur eftirlitið hins vegar rétt að veita almennan aðgang að svari þess til Símans.

Nánar um erindi Símans

Í bréfi Símans frá 9. júní kemur fram að vegna hagsmuna félagsins og þýðingar fyrir útboð rétthafa skipti verulegu máli að vita fyrirfram hvaða skyldur hvíli á rétthafa tiltekins myndefnis. Vegna þessa sé Samkeppniseftirlitinu skylt, að mati Símans, „að gefa það út með formlegri ákvörðun fyrirfram, hvort sýningaréttum að ensku úrvalsdeildinni, Meistaradeild Evrópu, Evrópukeppninni í fótbolta og innlendum íþróttaviðburðum og fréttatíma Stöðvar2 fylgi heildsölukvöð eða ekki. Ella er hætt við að bjóðendur í sýningarétti hafi ekki fullkomnar eða sömu upplýsingar og bjóði þar af leiðandi ranglega í réttindin.“ Af þessum sökum sé það mat Símans skv. sama bréfi að Samkeppniseftirlitið þurfi á allra næstum dögum, að gefa það út hvaða skyldur fylgi sýningarréttum, sér í lagi fyrir Ensku úrvalsdeildina auk annarra sýningarétta eins og Meistaradeild Evrópu.

Var Samkeppniseftirlitinu veittur níu daga frestur af hálfu Símans eða til 18. júní sl. til þess að gefa út áðurnefndar ákvarðanir sem Síminn óskaði eftir, en öðrum kosti væri óhjákvæmilegt að sögn Símans að upplýsa aðra bjóðendur og þátttakendur í útboðinu um óvissuna sem þessu fylgdi.

Þann 22. júní sendi Síminn svo viðbótarbréf til Samkeppniseftirlitsins þar sem fullyrt var án haldbærs rökstuðnings að það væri þá afstaða Samkeppniseftirlitsins, fyrst eftirlitið hefði ekki svarað bréfi Símans tímanlega, að engin heildsölukvöð væri til staðar vegna Ensku úrvalsdeildarinnar og þar af leiðandi væri Símanum eða öðrum aðilum, ekki skylt að afhenda útsendingar eða aðrar áskriftir að Ensku úrvalsdeildinni til keppinauta félagsins í heildsölu. Eins og áður segir er þessi fullyrðing Símans röng.