15.6.2018

Vegna fréttar á forsíðu Fréttablaðsins í dag

Í forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag er látið að því liggja að tugir manns hafi misst vinnuna hjá Odda prentsmiðju vegna þess að Samkeppniseftirlitið hafi brugðist seint við beiðni um að fella niður skilyrði sem hvíldu á fyrirtækinu.
 
Samkeppniseftirlitið hafnar þessum skilningi. Vill eftirlitið af þeim sökum koma eftirfarandi upplýsingum um málið á framfæri:

Í lok árs 2012 (ákvörðun nr. 27/2012) heimilaði Samkeppniseftirlitið samruna Kvosar ehf. (Nú Oddi prentun og umbúðir ehf.) og Plastprents ehf. með skilyrðum sem ætlað var að tryggja samkeppni á markaðnum en fyrirtækin voru einu framleiðendur á mjúkum plastumbúðum og umbúðum úr bylgjupappa hér á landi. Til grundvallar lá sátt milli samrunaaðila og Samkeppniseftirlitsins. Skilyrðunum var ætlað að tryggja eftirfarandi:

  • Að hin sameinuðu félög mismunuðu ekki viðskiptavinum á umbúðamarkaði í verði eða með öðrum viðskiptakjörum án þess að málefnaleg sjónarmið byggju þar að baki.
  • Að sameinað fyrirtæki gæti ekki synjað keppinautum á umbúðamarkaði um viðskipti nema á grundvelli málefnalegra ástæðna.
  • Að sameinað fyrirtæki gæti ekki gert það að skilyrði fyrir kaupum á vöru og þjónustu sem félagið veitti, að aðrar vörur eða þjónusta væru jafnframt keyptar.
  •  Að einstakar vörur sameinaðs fyrirtækis yrðu ekki verðlagðar þannig að tekjur af þeim yrðu nýttar til að niðurgreiða söluvörur Plastprents.

Þann 10. nóvember 2016 barst Samkeppniseftirlitinu erindi frá Odda, þar sem óskað var eftir því að skilyrðin yrðu felld niður þar sem staða Odda hefði breyst frá því að ákvörðunin var tekin. Í framhaldinu tók Samkeppniseftirlitið málið til skoðunar og aflaði m.a. umsagna aðila á markaði. Tveir keppinautar gerðu athugasemdir við beiðnina. Töldu þeir að Oddi hefði ennþá sterka stöðu á umbúðamörkuðum þar sem félagið væri það eina á Íslandi sem framleiddi mjúkar plastumbúðir og umbúðir úr bylgjupappa.

Að fengnum sjónarmiðum og upplýsingum keppinauta blasti við eftirlitinu að fara þyrfti í ítarlegri rannsókn. Vegna mikilla anna við meðferð samrunamála var Samkeppniseftirlitinu ekki unnt að hefja þá vinnu strax. Þegar nýir samrunar eru tilkynntir eftirlitinu verður ávallt að forgangsraða þeirri vinnu fram yfir önnur mál, þar sem eftirlitinu ber að taka afstöðu til samruna innan lögbundinna tímafresta.

Fyrirtækið lagði áherslu á að niðurstaða fengist í málið sem fyrst. Hvorki í upphaflegri beiðni Odda um endurskoðun skilyrðanna, né í síðari samskiptum, var þó byggt á því að umrædd skilyrði kynnu að leiða til þess að fyrirtækið myndi leggja niður framleiðslu með þeim afleiðingum að tugir manna myndu missa vinnuna.

Í lok janúar 2018 tilkynnti Oddi opinberlega að félagið hefði sagt upp 86 starfsmönnum vegna breyttra áherslna við umbúðaframleiðslu fyrirtækisins. Í framhaldinu upplýsti Oddi Samkeppniseftirlitið frekar um framangreind áform fyrirtækisins. 

Í kjölfar þessa aflaði Samkeppniseftirlitið á ný sjónarmiða frá þeim umsagnaraðilum sem lagst höfðu gegn niðurfellingu á skilyrðum ákvörðunar nr. 27/2012. Staðfestu þeir að breytingar hefðu orðið á markaðnum og að í ljósi þess væru forsendur fyrir umræddum skilyrðum ekki lengur til staðar.

Í ljósi framangreindra breytinga á rekstri Odda taldi Samkeppniseftirlitið að ekki væru lengur til staðar þær forsendur sem lágu til grundvallar sáttinni. Með ákvörðun nr. 15/2018, frá 11. maí sl., voru umrædd skilyrði því felld niður.