2.2.2023

Verðhækkanir og samkeppni - upplýsingasíða kynnt

Samkeppniseftirlitið aflar sjónarmiða hagsmunaaðila

  • Verdhaekkanir-og-samkeppni-1-

Hækkandi verðlag er til þess fallið að draga úr kaupmætti, skerða lífsgæði almennings og raska efnahagslegum forsendum í rekstri heimila og fyrirtækja. Við þær aðstæður sem nú eru ríkjandi er því mikilvægt að hafa vakandi auga með hvers konar samkeppnishindrunum. Stjórnvöld víða um heim eru nú að huga að þessu.

Upplýsingasíða - framlegðargreining

Með þetta í huga opnaði Samkeppniseftirlitið upplýsingasíðu þann 22. desember síðastliðinn. Þar er haldið utan um upplýsingar, aðgerðir og sjónarmið sem tengjast verðhækkunum og samkeppnishindrunum sem kunna að koma í ljós við ríkjandi efnahagsaðstæður.

Á upplýsingasíðunni er meðal annars að finna umræðuskjal nr. 3/2022, Þróun framlegðar á lykilmörkuðum, þ.e. dagvöru, eldsneyti og byggingavöru. Tekur greiningin til ársins 2017 og fram á árið 2022.

Samkeppniseftirlitið er nú að afla sjónarmiða hagsmunaaðila um verðhækkanir, þar á meðal um þróun framlegðar og atriði sem henni tengjast. Jafnframt er leitað sjónarmiða um þróun verðlags og samkeppnisaðstæðna á síðustu vikum og horfur á næstu vikum og mánuðum.

Fundur með menningar- og viðskiptaráðherra

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra hefur beitt sér í opinberri umræðu um þessi mál að undanförnu. Þar á meðal hefur hún tekið þátt í opnum umræðufundum á vettvangi samkeppnisyfirvalda, um samspil samkeppni og verðbólgu og áhrif samkeppni á hagvöxt og launakjör.

Á fundi í dag var upplýsingasíðan kynnt sérstaklega fyrir ráðherra. Jafnframt var vinna eftirlitsins kynnt frekar og áherslur á þessu sviði ræddar.

,,Eitt áhrifaríkasta verkfærið í samkeppnis- og neytendamálum er skilvirk upplýsingamiðlun til almennings. Að undanförnu hafa margar þjóðir verið að ganga í gegnum sérstakt árferði í efnahagsmálum þar sem verðlag hefur meðal annars farið hækkandi á ýmsum vörum og þjónustu. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að allir leggist á árarnar til að halda aftur af verðbólgu til að verja þá kaupmáttaraukningu sem hefur áunnist á undanförnum árum. Ný upplýsingasíða Samkeppniseftirlitsins er varða á þeirri vegferð sem skiptir máli fyrir aðhald í samkeppnis- og neytendamálum,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Virk samkeppni knýr fyrirtæki til að hagræða og bjóða eins hagkvæmt verð og unnt er á hverjum tíma. Samkeppnislegt aðhald vinnur þannig gegn því að fyrirtæki velti kostnaðarhækkunum yfir á viðskiptavini. Það er því brýnt verkefni fyrir samfélagið allt að verja og efla samkeppni, ekki síst á mörkuðum sem miklu skipta fyrir lífskjör almennings“, sagði Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins.

Bakgrunnsupplýsingar:

Samkeppnishindranir sem birst geta í verðhækkunum geta verið af ýmsum toga. Þær geta falist í háttsemi fyrirtækja, skipulagi markaða eða þeirri umgjörð sem stjórnvöld búa mörkuðum. Sem óháð stjórnvald á þessu sviði er það hlutverk Samkeppniseftirlitsins að grípa til íhlutunar þegar þörf er á eða beint tilmælum til fyrirtækja og stjórnvalda vegna mögulegra samkeppnishindrana. Jafnframt er mikilvægt að stjórnvöld og fyrirtæki á ólíkum sviðum hugi að því hvernig unnt er að draga úr samkeppnishindrunum við ríkjandi aðstæður.

Eins og rakið er í fréttinni er Samkeppniseftirlitið að afla sjónarmiða hagsmunaaðila um verðhækkanir, til að mynda um framlegðargreininguna og atriði sem henni tengjast. Þar á meðal er óskað sjónarmiða um eftirfarandi:

  1. Ábendingum og sjónarmiðum um samkeppnishindranir fyrirtækja á mikilvægum mörkuðum íslensks atvinnulífs, sem kunna að hafa birst í hækkun verðs á vöru eða þjónustu á síðustu mánuðum.
  2. Sjónarmiðum og upplýsingum frá hlutaðeigandi fyrirtækjum á dagvöru-, eldsneytis- og byggingavörumörkuðum sem varpa frekara ljósi á þróun framlegðar og framlegðarhlutfalla á þessum mörkuðum sem lýst er í umræðuskjalinu.
  3. Sjónarmiðum og upplýsingum frá málsvörum neytenda á dagvöru-, eldsneytis- og byggingavörumörkuðum í tilefni af greiningu á þróun framlegðar og framlegðarhlutfalla á viðkomandi mörkuðum sem lýst er í umræðuskjalinu.
  4. Sjónarmiðum og ábendingum um stöðu samkeppni á banka- og vátryggingamörkuðum sem m.a. geta komið að gagni við athuganir og forgangsröðun athugana og annarra verkefna í eftirliti með samkeppni á þessu sviði.
  5. Sjónarmiðum og upplýsingum frá stjórnendum fyrirtækja á lykilmörkuðum um það hvaða áhrif samkeppnislegt aðhald á viðkomandi markaði hefur á stefnumörkun og ákvarðanir um arðgreiðslur til hluthafa.
  6. Upplýsingum og sjónarmiðum frá eigendum fyrirtækja á lykilmörkuðum sem eiga veigamikinn eignarhlut í fleiri en einu fyrirtæki á sama markaði, um það hvernig eigendaaðhald af þeirra hálfu styður við samkeppni og vinnur gegn verðhækkunum.
  7. Ábendingum og sjónarmiðum um samkeppnishindranir af hálfu stjórnvalda, s.s. í lögum eða reglum, sem brýnt er að taka til umfjöllunar í tilefni af hækkun verðs og vöru eða þjónustu á síðustu mánuðum.
  8. Sjónarmiðum um áherslur og forgangsröðun í verkefnum Samkeppniseftirlitsins á næstu misserum, vegna þeirra efnahagsaðstæðna sem nú ríkja.
  9. Sjónarmiðum um þróun verðlags og samkeppnisaðstæðna á síðustu vikum og mánuðum, þ.e. um mögulegar breytingar sem orðið hafa á verðlagningu og ástæðum þess.
  10. Sjónarmiðum um horfur á næstum vikum og mánuðum, að því er varðar þróun verðlags á lykilmörkuðum.

Frestur til að skila inn sjónarmiðum í gegnum netfangið samkeppni@samkeppni.is rennur út 14. febrúar næstkomandi.