Virk samkeppni er forsenda markmiða í atvinnustefnu stjórnvalda
Umsögn um drög að atvinnustefnu stjórnvalda
Samkeppniseftirlitið hefur skilað umsögn um drög að nýrri atvinnustefnu stjórnvalda. Samkeppniseftirlitið telur jákvætt að fyrirhuguð atvinnustefna byggi á markmiðum um nýsköpun, fjölbreytni útflutningsgreina og fjölbreytni starfa á landsvísu, allt með áherslu á tækifæri til aukinnar framleiðni og aukinnar samkeppnishæfni. Jafnframt er jákvætt að umfjöllun draganna um tiltekin svið atvinnustarfsemi virðist ekki fela í sér ráðagerð um að stjórnvöld hyggist veita nánar tilteknum atvinnugreinum sérstakan stuðning umfram aðrar (velja sigurvegara) eða verja þær fyrir utanaðkomandi samkeppni (verndarstefna).
Í umsögninni er lögð er áhersla á að virka samkeppni þurfi að gera að sýnilegri grunnþætti stefnunnar, m.a. með lögfestu samkeppnismati, einföldun regluverks og bættum opinberum innkaupum. Þá eru reifuð fjölmörg álit Samkeppniseftirlitsins sem gætu stutt við markmið atvinnustefnunnar. Í umsögninni er jafnframt bent á að virk samkeppni sé forsenda þess að markmið stjórnvalda um aukna framleiðni, nýsköpun og alþjóðlega samkeppnishæfni nái fram að ganga, og lagt til að bætt verði við sjöttu almennu stefnuáherslunni:
Eflum samkeppni með því að greiða fyrir aðgangi erlendra og innlendra aðila, vinna gegn hvers konar samkeppnishindrunum og tryggja að regluverk, ívilnanir og opinber stuðningur raski ekki samkeppni.
Slík stefnuáhersla myndi stuðla að því að atvinnustefnan standi á sterkum undirstöðum og að markmið um aukna framleiðni og verðmætasköpun nái fram að ganga til lengri tíma.
