26.6.2024

Héraðsdómur dæmir í máli Símans gegn Samkeppniseftirlitinu

  • Mynd-siminn

Með ákvörðun nr. 24/2023 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að ekki væru forsendur til þess að verða við kröfu Símans um að fella niður öll skilyrði sem fyrirtækið hafði áður skuldbundið sig til að fylgja í því skyni að efla samkeppni á fjarskiptamörkuðum. Hafði Síminn (þá Skipti) á árinu 2013 gert sátt við eftirlitið um lok 7 mála þar sem til rannsóknar var hvort fyrirtækið hefði brotið gegn bannreglum samkeppnislaga og sátt sem það hafði gert við samkeppnisyfirvöld. Á árinu 2015 voru skilyrðin síðan endurskoðuð að beiðni Símans, sbr. ákvörðun nr. 16/2015.

Eftir að Síminn seldi frá sér innviðafyrirtækið Mílu taldi fyrirtækið að aðstæður hefðu breyst og að fella ætti niður allar skuldbindingar sem það hafði gengist undir með sáttinni. Féllst Samkeppniseftirlitið ekki á það, sbr. ákvörðun nr. 24/2023, og fór Síminn í framhaldinu málið fyrir héraðsdóm.

Dómur héraðsdóms var kveðinn upp í dag - sjá hér . Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

  • Héraðsdómur fellst ekki á það með Símanum að skilyrðin væru fallin úr gildi þar sem tímafrestir Samkeppniseftirlitsins til endurskoðunar á þeim væru liðnir.
  • Komist er að þeirri niðurstöðu að Samkeppniseftirlitið hafi ekki lagt nægjanlega traustan grundvöll að þeirri niðurstöðu að synja að mestu kröfum Símans um niðurfellingu skilyrðanna. Á þeim forsendum felldi héraðsdómur ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 24/2023 úr gildi.
  • Héraðsdómur fellst ekki á það með Símanum að niðurstaðan komi í veg fyrir að Samkeppniseftirlitið geti tekið málið til efnislegrar meðferðar að nýju. Það þýðir að skilyrðin sem Síminn skuldbatt sig upphaflega til að fylgja, og lýst er í ákvörðun nr. 6/2015, eru enn í fullu gildi.
  • Þá er ekki er fallist á það með Símanum að sala á Mílu leiði til þess að engin nauðsyn sé fyrir skilyrðum sáttarinnar.

Samkeppniseftirlitið mun fara yfir niðurstöður dómsins og mun í kjölfarið taka ákvörðun um hvort endurskoðun á skilyrðum sem hvíla á Símanum, sbr. ákvörðun nr. 6/2015, verði tekin að nýju til meðferðar eða hvort látið verði reyna á dóm héraðsdóms fyrir Landsrétti.