24.3.2021

Í tilefni af opinberri umfjöllun um sölu Festi á verslun á Hellu og störf kunnáttumanns

Í framhaldi af aðalfundi Festi hafa fjölmiðlar fjallað um sátt sem N1 og Festi (nú Festi) gerðu við Samkeppniseftirlitið vegna samruna fyrirtækjanna. Í því sambandi hefur sérstaklega verið fjallað um sölu Festi á verslun á Hellu og störf óháðs kunnáttumanns sem skipaður var á grundvelli sáttarinnar.

Í tilefni af þessu og í þágu upplýstrar umræðu um samkeppnismál er rétt að taka fram eftirfarandi:

Um sáttir skv. samkeppnislögum

Ef samruni sem Samkeppniseftirlitið hefur til rannsóknar raskar samkeppni geta fyrirtæki óskað eftir því að gerð verði sátt. Í því felst að fyrirtæki leggja til skilyrði sem eiga að afstýra því að samruninn hindri samkeppni. Ef Samkeppniseftirlitið telur skilyrðin fullnægjandi er gerð sátt og er hún bindandi fyrir viðkomandi fyrirtæki þegar það hefur „samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni“, sbr. 17. gr. f samkeppnislaga. Fyrirtæki fær því að framkvæma samrunann gegn loforði um að standa við skuldbindingar sínar. Hefur áfrýjunarnefnd samkeppnismála tekið fram að það sé brýnt að fyrirtæki virði skilyrði fyrir samruna og að treysta megi því að sáttir í slíkum málum séu meira en orðin tóm,“ sbr. úrskurð í máli nr. 5/2011.

Brot á skilyrðum geta varðað viðkomandi fyrirtæki sektum, sbr. 37. gr. samkeppnislaga. Til viðbótar segir í 17. gr. e samkeppnislaga að hafi Samkeppniseftirlitið heimilað samruna með setningu skilyrða geti eftirlitið afturkallað slíka ákvörðun ef „hlutaðeigandi fyrirtæki brjóta gegn skilyrðum sem samruna hafa verið sett.

Um sáttina við Festi

Við rannsókn á samruna N1 og Festi lögðu samrunaaðilar (nú Festi) að eigin frumkvæði fram tillögur að skilyrðum sem þeir töldu að leystu úr þeim samkeppnislegu vandamálum sem rannsókn Samkeppniseftirlitsins leiddi í ljós.

Meðal annars fólu tillögur samrunaaðila í sér aðgerðir til skapa rými fyrir nýjan keppinaut í eldsneytissölu á höfuðborgarsvæðinu (sala á Dælunni) og auka aðgengi endurseljenda að heildsölu eldsneytis. Einnig lögðu samrunaaðilar til sölu verslunar Kjarvals á Hellu til þess að tryggja samkeppni á því svæði. Yfirlit yfir skilyrðin má nálgast hér.

Hvaða vandamál áttu sölutillögur Festi vegna verslunar á Suðurlandi að leysa?

Við rannsókn á áhrifum samrunans skoðaði Samkeppniseftirlitið sérstaklega hvort samruninn kynni að hafa óæskileg staðbundin áhrif á þeim landssvæðum sem báðir samrunaaðilar störfuðu. Beindist rannsóknin m.a. að áhrifum samrunans á sölu dagvara á Hellu og Hvolsvelli.

Til þess að kanna það samkeppnislega aðhald sem aðrar verslanir, s.s. í næstu bæjarfélögum, myndu veita hinu sameinaða fyrirtæki var framkvæmd neytendakönnun á meðal viðskiptavina N1 og Festi á Hellu og Hvolsvelli. Niðurstöður hennar sýndu að N1 og Festi væru nánir keppinautar á þessu svæði og myndu búa við takmarkað samkeppnislegt aðhald á svæðinu eftir samrunann. Röskun á samkeppni vegna samrunans gæti leitt til hærra verðs, minna vöruúrvals, skemmri opnunartíma og verri þjónustu að öðru leyti við neytendur á þessu landsvæði. Þegar samrunar hafa slík skaðleg áhrif ber Samkeppniseftirlitinu að bregðast við.

Tók Samkeppniseftirlitið til athugunar hvort skilyrðin sem Festi lögðu til myndu ná því markmiði að tryggja hagsmuni íbúa á svæðinu og annarra viðskiptavina. Taldi Samkeppniseftirlitið svo vera og horfði m.a. til þess að í skilyrðunum kemur skýrt fram að nýr rekstraraðili verslunar á svæðinu hefði burði til að veita a.m.k. sambærilega þjónustu á samkeppnishæfu verði.

Ítarlega er fjallað um niðurstöður rannsóknar á þessu í ákvörðun nr. 8/2019, Samruni N1 hf. og Festi hf., sjá einkum kafla IV 12, bls. 251-263.

Af hverju hafa söluskilyrðin ekki gengið fram samkvæmt efni sínu?

Sala Festi á verslun á svæðinu hefur ekki náð fram að ganga. Meginástæður þess eru tvíþættar. Annars vegar kom í ljós að Festi hafði ekki tryggt sér heimild til að framselja tiltekin leiguréttindi að húsnæði á svæðinu. Við undirbúning sáttarinnar upplýsti Festi ekki Samkeppniseftirlitið um að félagið skorti fullnægjandi réttindi að þessu leyti.

Hins vegar hefur félagið í a.m.k. eitt skipti gert sölusamning við aðila sem uppfyllti ekki skilyrði um að vera óháður keppinautur sem myndi veita Festi samkeppnislegt aðhald. Ef kaupandi er óburðugur eða tengdur Festi nær þetta skilyrði ekki markmiði sínu. Nánar er fjallað um þetta hér.

Af þessum sökum hefur Festi ekki staðið við þær skuldbindingar sem félagið hafði undirgengist að eigin frumkvæði. Eru tímafrestir sem Festi hafði til að selja verslun Kjarvals á Hellu nú liðnir.

Söluúrræði sáttarinnar

Í sáttinni er að finna úrræði sem unnt er að grípa til vegna þeirrar stöðu sem upp er komin, þ.e. að Festi hefur ekki innan frests selt verslunina á Hellu til kaupanda sem veitt getur samkeppnislegt aðhald. Í þeim felst m.a. að Festi hefur skuldbundið sig til þess að stíga frá sölutilraunum á versluninni á Hellu og fallast á að óháður aðili með fullt umboð selji tilteknar eignir Festi til að tryggja það að markmið sáttarinnar nái fram, sbr. 17. gr. sáttarinnar. Nákvæm útfærsla á þessu úrræði er hins vegar háð trúnaði, sbr. 15. gr. sáttarinnar.

Áhrif mögulegrar lokunar verslunarinnar á Hellu

Í fjölmiðlum hefur verið greint frá því að Festi kunni að loka verslun sinni á Hellu, þar sem sala á versluninni hafi ekki náð fram að ganga.

Samkvæmt sáttinni skuldbatt Festi sig til að grípa til „vandaðra ráðstafana“ til að tryggja að fyrirmælum sáttarinnar sé fylgt og ná fram markmiði hennar, sbr. 2. og 28. gr. sáttarinnar.

Samkeppniseftirlitið bendir á að möguleg lokun verslunarinnar á Hellu ryður ekki úr vegi þeirri skuldbindingu Festi að koma í veg fyrir að samruninn raski samkeppni á svæðinu. Engin af þeim tillögum sem Festi lagði til, og Samkeppniseftirlitið samþykkti, hafði það að markmiði að gera stöðu neytenda verri eftir samrunann, heldur þvert á móti að verja hagsmuni þeirra. Komi til lokunar á verslunarinnar á Hellu, án þess að Festi hafi uppfyllt skuldbindingar sínar að þessu leyti, má vænta þess að Samkeppniseftirlitið taki til skoðunar hvort lokunin feli í sér brot sáttinni.

Rannsókn hafin á mögulegum brotum á sáttinni

Eins og greint hefur verið frá opinberlega hóf Samkeppniseftirlitið í desember sl. rannsókn á mögulegum brotum Festi á framangreindri sátt. Eftirfarandi atriði eru einkum til rannsóknar:

  1. Hvort og þá hvernig Festi hafi brotið gegn skuldbindingu um að selja eina þriggja verslana félagins á Hellu eða Hvolsvelli.
  2. Hvort Festi hafi brotið gegn þeim skilyrðum sáttarinnar sem skylda félagið til þess að selja Dælunni eldsneyti í heildsölu á sannanlegu kostnaðarverði. Þessi skilyrði voru sett í því skyni að auka verðsamkeppni við smásölu eldsneytis og stuðla að innkomu nýs keppinautar á markað.
  3. Hvort Festi hafi brotið gegn sáttinni með meintri sölusynjun félagsins og verðlagningu í garð minni keppinautar sem óskaði eftir því að kaupa eldsneyti í heildsölu af félaginu.
  4. Hvort brotið hafi verið gegn skyldu til að láta af hendi gögn er varða verðmyndun á eldsneyti.
  5. Hvort brotið hafi verið gegn skyldu til að hefja viðræður við Samkaup um endurskoðun viðskiptasamnings Samkaupa og N1 í ljósi samkeppnislaga, innan þriggja mánaða frá gerð sáttarinnar.
  6. Hvort vanrækt hafi verið halda fullnægjandi samskiptaskrár vegna viðskipta og/eða samstarfs við keppinauta.
  7. Hvort vanrækt hafi verið að tilnefnina fullnægjandi heildsölutengilið í skilningi sáttarinnar.

Öll framangreind skilyrði hafa það að markmiði að koma í veg fyrir skaðleg áhrif samruna Festi og N1.

Skipan og störf óháðs kunnáttumanns

Rétt er að árétta að skipan eftirlitsaðila/kunnáttumanns í málum af þessu tagi er byggð á alþjóðlegum fordæmum í samkeppnisrétti. Jafnframt er rétt að árétta að í skipun kunnáttumanns felst ekki framsal á hlutverki eða skyldum viðkomandi samkeppnisyfirvalds, heldur felst í því að viðkomandi aðili hefur það hlutverk að fylgja því eftir að viðkomandi fyrirtæki grípi tímanlega til þeirra ráðstafana sem það hefur lofað að grípa til og jafnframt að taka til skoðunar mögulegar kvartanir og önnur atriði sem kalla á sérstaka skoðun. Er hann oft í stöðu til þess að leysa úr álitaefnum sem upp koma, sem og kvörtunum keppinauta og viðskiptavina, með skjótvirkari hætti en samkeppnisyfirvöldum er unnt. Þannig getur skipan kunnáttumanns leitt til töluverðs hagræðis bæði fyrir viðkomandi fyrirtæki og samkeppnisyfirvöld. Auk þess er sem fyrr segir stuðlað enn frekar að því að m.a. samrunar fyrirtækja valdi almenningi ekki tjóni.

Í þessu máli hefur kunnáttumaður gegnt mikilvægu hlutverki í að varpa ljósi á framkvæmd Festi á þeim skilyrðum sem félagið skuldbatt sig til að fylgja. Í samræmi við starfsskyldur sínar hefur hann gert Samkeppniseftirlitinu grein fyrir mögulegum brotum á sáttinni. Eru þau nú til rannsóknar, samkvæmt framansögðu. Samkvæmt framangreindu hafa störf kunnáttumanns lotið að fjölmörgum öðrum þáttum en sölu verslunar á Hellu.

Að því er varðar skipan kunnáttumanns í þessu máli er rétt að taka fram að samkvæmt sáttinni skuldbatt Festi sig til þess að tryggja fullnægjandi eftirlit með framkvæmd hennar og velja til þess óháðan kunnáttumann. Tilnefndi Festi þrjá einstaklinga í því skyni. Þann 31. ágúst 2018 birti Festi frétt á Nasdaq Iceland – Kauphöll, þar sem greint er frá skipan kunnáttumanns. Þar er kemur fram að þann 9. ágúst 2018 hafi forstjóri N1 tilnefnt „þrjá einstaklinga sem félagið taldi hæfa til að gegna hlutverki hins óháða kunnáttumanns. Að undangengnu hæfismati féllst Samkeppniseftirlitið á að Lúðvík Bergvinsson yrði falið hlutverk óháða kunnáttumannsins.“ Hinir einstaklingarnir sem Festi tilnefndi uppfylltu ekki skilyrði um óhæði gagnvart Festi og eftirlitsverkefnum sáttarinnar.

Þekkt er í samkeppnismálum að kostnaður af störfum kunnáttumanna getur verið mismunandi. Ræðst það m.a. af því hvort og hvernig viðkomandi fyrirtæki fara að þeim skuldbindingum sem þau hafa lofað að hlíta. Samkeppniseftirlitið hefur gefið fyrirtækjum leiðbeiningar um kostnaðaraðhald með kunnáttumönnum eða eftirlitsnefndum sem starfa samkvæmt sáttum við fyrirtæki. Þar kemur m.a. fram að fyrirtækjum sé rétt að sýna kunnáttumönnum kostnaðaraðhald með svipuðum hætti og með annarri aðkeyptri þjónustu, án þess að sjálfstæði starfsins sé stefnt í hættu.

Nánar er fjallað um skipan kunnáttumanns og kostnaðaraðhald vegna starfa kunnáttumanna eða annarra sambærilegra eftirlitsaðila í frétt á heimasíðu eftirlitsins, sem aðgengileg er hér.

Um störf kunnáttumanna almennt má vísa til þess að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra svaraði á síðasta þingi fyrirspurn á Alþingi um eftirlit með samrunum. Við vinnslu svarsins óskaði ráðuneytið upplýsinga frá Samkeppniseftirlitinu. Svarið er aðgengilegt hér.