24.8.2006

Staða á viðskiptabankamarkaði

 • könnun norrænna samkeppniseftirlita
 • áherslur Samkeppniseftirlitsins
 • Samþjöppun á íslenskum bankamarkaði er mjög mikil. Sama gildir um hin Norðurlöndin.
 • Enginn erlendur banki er með starfsemi á Íslandi.
 • Meiri vaxtamunur er á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum.
 • Eignarhald á íslenskum greiðslukerfum og kortafyrirtækjum er mjög samtvinnað.
 • Viðskiptavinir bankanna skipta ekki um banka. Svo nefndur hreyfanleiki þeirra er mjög lítill.
 • Samkeppniseftirlitið telur nauðsynlegt að gripið verði til aðgerða til þess að auka hreyfanleika viðskiptavina bankanna en það er mikilvæg forsenda fyrir aukinni virkri samkeppni á markaðnum.
 • Samkeppniseftirlitið telur nauðsynlegt að hugað sé að aðgangshindrunum að greiðslukerfum bankanna og sameiginlegu eignarhaldi banka og sparisjóða á greiðslukortafyrirtækjunum.
Mynd: Borði með merkjum norðurlandafána

Fjármálastarfsemi gegnir mikilvægu hlutverki í efnahagslífi hverrar þjóðar. Hún gegnir afgerandi hlutverki fyrir starfsemi á öðrum mörkuðum og í efnahagskerfinu í heild. Bankastarfsemi stuðlar að og örvar viðskipti með vöru og þjónustu sem á að leiða til lægri viðskiptakostnaðar til hagsældar fyrir þjóðfélagið. Þess vegna er grundvallaratriði að samkeppni sé virk á fjármálamarkaði og markaðurinn sé eins skilvirkur og mögulegt er. Skortur á samkeppni í þjónustu banka skaðar neytendur. Kemur það fram í háu verðlagi, skorti á nýjungum og óskilvirkum fjármálamarkaði. Þess vegna er fjármálastarfsemi á meðal þeirra þátta atvinnulífsins sem Samkeppniseftirlitið leggur megináherslu á í starfsemi sinni. Haustið 2005 ákváðu samkeppnisyfirvöld á Norðurlöndum að rannsaka og skilgreina hugsanleg samkeppnisleg vandamál á markaði fyrir almenna bankaþjónustu (e. retail banking market) í löndunum. Markmiðið var að birta skýrslu um niðurstöðuna og tillögur til úrbóta væri þess talin þörf. Ákveðið var að skoða sérstaklega eftirfarandi atriði:

 1. Þróun og samþjöppun á norrænum bankamarkaði árin 1995 til 2004 með sérstöku tilliti til þjónustu við heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki.
 2. Aðgang nýrra banka að greiðslukerfum sem nauðsynleg eru fyrir almenna bankastarfsemi.
 3. Fyrirkomulag á greiðslukortamarkaði landanna.
 4. Hreyfanleika viðskiptavina milli viðskiptabanka, þ.e. í hve miklum mæli viðskiptavinir færa viðskipti sín á milli banka.

Sjá alla fréttatilkynninguna á pdf formi.
Glærur vegna fréttamannafundar.
Skýrslan.