23.12.2011

Viðskipti Landsbankans hf. og Bifreiðainnflutnings ehf. með eignarhluti í Toyota á Íslandi ehf.

Toyota_LogoSamkeppniseftirlitið hefur með ákvörðun nr. 41/2011 sem birt er í dag sett ítarleg skilyrði fyrir viðskiptum Landsbankans hf. og Bifreiðainnflutnings ehf. (BIF) með eignarhluti í Toyota á Íslandi ehf. (Toyota). Eru skilyrðin m.a. sett í því skyni að draga úr röskun á samkeppni sem getur stafað af eignarhaldi Landsbankans á 40% eignarhlut í Toyota.

Við mat á samruna þessum var m.a. horft til ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2011, Kaup Framtakssjóðs Íslands slhf. á Eignarhaldsfélaginu Vestia ehf. Í því máli setti Samkeppniseftirlitið kaupum Framtakssjóðs Íslands (FSÍ) á Eignarhaldsfélaginu Vestia skilyrði. Í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins kom m.a. fram að eignarhald NBI (nú Landsbankinn) á hlut í FSÍ gæti raskað samkeppni á viðkomandi mörkuðum og valdið misvægi í samkeppni á fjármálamarkaði.

Viðræður við samrunaaðila hafa leitt til þess að þeir hafa undirgengist sátt í málinu. Hafa þannig Landsbankinn og BIF fallist á að hlíta þeim skilyrðum sem sett eru fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.

Nánar er fjallað um skilyrðin og forsendur þeirra í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 41/2011.