3.12.2012

Sveitarfélögum ber að draga úr opinberum samkeppnishömlum og hvetja til samkeppni

HúslyklarSamkeppniseftirlitið hefur sent öllum sveitarfélögum á Íslandi bréf, dags. 29. nóvember sl.,  þar sem minnt er á hversu brýnt það er að þau kappkosti að draga úr opinberum samkeppnishömlum og hvetji fremur til samkeppni. Með því sé unnt að bæta hag fyrirtækja og íbúa og um leið skjóta styrkari stoðum undir atvinnulíf á viðkomandi svæði. Almennt sé viðurkennt að í eflingu samkeppni felist rétt viðbrögð við efnahagskreppu.

Í bréfinu er minnt á nokkur álit sem beint hefur verið til sveitarfélaga á síðustu árum þar sem fjallað er um álitaefni þessu tengd.

  • Álit Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2012, Gæta skal að samkeppnissjónarmiðum við útleigu og sölu húsnæðis á vegum hins opinbera. Þar er þeim tilmælum beint til opinberra aðila, hvort sem er á vettvangi ríkis eða sveitarfélaga, að þeir leiti tilboða í hlutlægu, málefnalegu og gagnsæju ferli þegar húsnæði eða önnur takmörkuð gæði eru seld eða leigð út til aðila sem stunda samkeppnisrekstur.
  • Álit nr. 3/2009, Skipulag, lóðaúthlutanir og samkeppni. Þar var því m.a. beint til sveitarfélaga á Íslandi að hafa tilteknar meginreglur til hliðsjónar við skipulagsmál og úthlutun lóða.
  • Álit nr. 4/2009, Opinber útboð, samkeppni og samkeppnishindranir. Þar er því beint til opinberra aðila, þ. á m. sveitarfélaga, að beita útboðum þegar því verði við komið og fylgjast markvisst með því að farið sé að samkeppnislögum við framkvæmd útboða. Álitinu fylgdi m.a. gátlisti sem auðveldar útboðsaðilum að koma auga á ólögmætt samráð.

Tildrög bréfsins eru þau að fyrir skemmstu birti Samkeppniseftirlitið fyrst talda álitið, nr. 1/2012. Álitið var kynnt ráðuneytum og tíu stærstu sveitarfélögum landsins með bréfum, dags. 25. september sl. Jafnframt óskaði Samkeppniseftirlitið eftir því við Samband íslenskra sveitarfélaga að það kæmi álitinu á framfæri við öll sveitarfélög sem aðild eiga að sambandinu.  Þar sem það hefur ekki verið gert ákvað Samkeppniseftirlitið að senda umrætt bréf til allra sveitarfélaga.

Bréfið má nálgast hér.