10.3.2015

Efla þarf samkeppni á dagvörumarkaði

Margir þurfa að leggja hönd á plóg

Samkeppniseftirlitið birtir í dag skýrslu nr. 1/2015, (vefúgáfa) Leiðbeining um samkeppni á dagvörumarkaði – Staða samkeppninnar 2015. Í skýrslunni kemur eftirfarandi m.a. fram:

 • Heldur hefur dregið úr markaðshlutdeild Haga frá árinu 2009. Á sama tíma hafa nýir aðilar náð að auka hlutdeild sína. Þannig eru vísbendingar um að samþjöppun sé smám saman að minnka, a.m.k. um stundarsakir. Áfram er þó mikil samþjöppun á dagvörumarkaði. Ekki eru komnar fram vísbendingar um að staða Haga sem markaðsráðandi aðila á markaðnum hafi breyst (kafli 3).

 • Verðhækkanir á dagvöru undanfarið skýrast ekki einvörðungu af ytri aðstæðum. Þannig hefur verð á innfluttum vörum ekki lækkað til samræmis við gengisstyrkingu og verðþróun erlendis síðustu misserin. Á sama tíma hefur afkoma helstu verslanasamstæðna almennt verið góð. Mikilvægt er að neytendur njóti styrkingar á gengi og bættrar afkomu í gegnum lægra vöruverð (kafli 4).

 • Talsvert skortir á að birgjar hafi sýnt fram á að verðmunur í samningum þeirra við annars vegar stærri verslanakeðjur og hins vegar smærri verslanir byggist á málefnalegum forsendum, s.s. vel rökstuddum kostnaðarútreikningum, en Samkeppniseftirlitið varpaði ljósi á þennan verðmun með skýrslu nr. 1/2012, Verðþróun og samkeppni á dagvörumarkaði. Þó eru vísbendingar um að almennt hafi dregið úr samkeppnishamlandi verðmismun frá árinu 2012 (kafli 5).

 • Núgildandi samningar um skilarétt dagvöruverslana á vörum til birgja geta stuðlað að sóun á matvælum og þar með hærra vöruverð (kafli 5).

 • Stjórnvöld hafa í mörgum tilvikum látið hjá líða að taka tillit til leiðbeininga og tilmæla samkeppnisyfirvalda um að skapa aðstæður fyrir samkeppni og nýta hvata samkeppninnar í landbúnaði (kafli 2).

 • Fyrirtæki á dagvörumarkaði hafa í mörgum tilvikum látið hjá líða að fylgja leiðbeiningum sem Samkeppniseftirlitið hefur beint til þeirra á liðnum árum. Þannig hefur Samkeppniseftirlitið ítrekað þurft að grípa til íhlutunar í starfsemi fyrirtækja sem auðveldlega hefði verið hægt að komast hjá ef þau hefðu farið að leiðbeiningum eftirlitsins (kafli 2).

Með hliðsjón af framangreindu beinir Samkeppniseftirlitið því til aðila á markaði og stjórnvalda að grípa til eftirfarandi aðgerða:

 • Stjórnvöld verða að beita sér fyrir aukinni samkeppni, m.a. með opnun markaða og endurskoðun á samkeppnishindrandi ákvæðum búvöru- og tollalaga (kafli 2).

 • Birgjar og dagvöruverslunin verða að endurskoða viðskiptasamninga sína og fara að leiðbeiningum Samkeppniseftirlitsins (kafli 2 og 5).

 • Samtök fyrirtækja á dagvörumarkaði þurfa að beita sér fyrir bættri samkeppnismenningu í sínum röðum, sem m.a. felst í því að tryggja að samkeppnislögum og þeim leikreglum sem lesa má út úr framkvæmd laganna sé fylgt (kafli 2).

 • Mikilvægt er að neytendur og samtök sem bera hag þeirra fyrir brjósti sýni fyrirtækjum á dagvörumarkaði aðhald með öllum tiltækum ráðum. Aðhald neytenda getur haft mikla þýðingu til þess að tryggja að bættar ytri aðstæður skili sér í lægra verði og að nýlegar breytingar á opinberum gjöldum leiði ekki til hærra vöruverðs en óhjákvæmilegt er (kafli 4).

 • Endurskoða þarf núverandi fyrirkomulag um skilarétt dagvöruverslana á vörum til birgja, í því skyni að auka hvata smásala til hagkvæmrar birgðastýringar en það ætti að öðru óbreyttu að leiða til lægra verðs og draga úr sóun matvæla (kafli 5).

Bakgrunnsupplýsingar:

Í skýrslunni sem nú er kynnt er nánar tiltekið að finna eftirfarandi umfjöllun:

 • Dregnar eru saman í heildstætt yfirlit þær leiðbeiningar um efni samkeppnislaga og háttsemi á dagvörumarkaði, sem samkeppnisyfirvöld hafa beint til fyrirtækja, samtaka þeirra og stjórnvalda á liðnum árum og misserum. Skýrslan er að þessu leyti liður í því að styrkja leiðbeiningarstarf Samkeppniseftirlitsins, en það er eitt af áhersluatriðum í starfi þess.

 • Settar eru fram nýjar upplýsingar um markaðshlutdeild dagvöruverslana á landinu öllu og skipt niður á einstök landsvæði. Jafnframt er fjallað um þróun markaðshlutdeildar frá árinu 1999.

 • Fjallað um verðþróun frá útgáfu skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2012, Verðþróun og samkeppni á dagvörumarkaði, og þeirri spurningu svarað hvort verðþróun skýrist af ytri aðstæðum, eins og leitt var líkum að í skýrslu nr. 1/2012.

 • Gerð er grein fyrir athugunum Samkeppniseftirlitsins á viðskiptasamningum birgja og dagvöruverslana frá útgáfu fyrrgreindrar skýrslu nr. 1/2012. Einnig er gerð grein fyrir afstöðu Samkeppniseftirlitsins til þess hvernig draga megi úr svokallaðri matarsóun í matvöruverslun.