4.4.2017

Tilmælum beint til stjórnvalda um að stuðla að bættri samkeppni á eldsneytismarkaðnum

Tilmælum beint til stjórnvalda um að stuðla að bættri samkeppni á eldsneytismarkaðnum

Í dag hefur Samkeppniseftirlitið birt fjögur álit þar sem mælst er til þess við Reykjavíkurborg, umhverfis- og auðlindaráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Flutningsjöfnunarsjóð olíuvara að þessir aðilar beiti sér fyrir breytingum á umgjörð eldsneytismarkaðar til að stuðla að virkari samkeppni.

Álitin eru birt í tengslum við markaðsrannsókn Samkeppniseftirlitsins á markaðnum. Miðar rannsóknin að því að koma auga á samkeppnishömlur á markaðnum og grípa til aðgerða til að draga úr þeim.

Skipulagsmál og úthlutun lóða – Reykjavíkurborg þarf að endurskoða stefnu sína

Tvö álitanna beinast að skipulagsmálum og úthlutun lóða, en ákvarðanir um þetta geta skipt sköpum í samkeppni á eldsneytismarkaði. Mjög mismunandi er hvort og hvernig litið er til samkeppnissjónarmiða við ákvarðanir sveitarfélaga varðandi þessi atriði. Þótt ráðuneytið hafi túlkað lögin þannig að sveitarfélögum beri að taka tillit til samkeppnissjónarmiða við skipulagsgerð og úthlutun lóða, hefur a.m.k. Reykjavíkurborg ekki talið sér skylt að gera það.

Að mati Samkeppniseftirlitsins er stefna og framkvæmd Reykjavíkurborgar til þess fallin að hindra samkeppni. Í skipulagi borgarinnar er kveðið á um að spornað verði við fjölgun bensínstöðva í borginni og miðað við að þeim fjölgi ekki. Þótt undirliggjandi markmið eigi fullan rétt á sér, eru sterkar vísbendingar um að þær leiðir sem borgin hefur valið að þessu markmiði hafi lítil eða jafnvel þveröfug áhrif. Ástæðan er m.a. sú að stefna borgarinnar leiðir til þess að nýir eða smærri aðilar eiga erfitt með að komast inn á markaðinn og vaxa. Þar með minnka líkur á virkara samkeppnislegu aðhaldi gagnvart starfandi félögum, en slík samkeppni gæti knúið starfandi félög til að hagræða og e.a. loka óarðbærum stöðvum. Þess í stað getur stefna borgarinnar leitt til þess að starfandi félög haldi að sér höndum við hagræðingu og lokun stöðva.

Af þessum sökum beinir Samkeppniseftirlitið þeim tilmælum til;

  • Reykjavíkurborgar að hún beiti sér fyrir því að draga úr þeim samkeppnishömlum á íslenska eldsneytismarkaðnum sem felast í núgildandi stefnu og framkvæmd Reykjavíkurborgar varðandi eldsneytisstöðvar (sjá álit nr. 2/2017),
  •  umhverfis- og auðlindaráðherra að hann beiti sér fyrir breytingum á ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 þannig að kveðið verði skýrt á um að hafa skuli hliðsjón af samkeppnissjónarmiðum við framkvæmd laganna (sjá álit nr. 1/2017).

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins:

Það er mikilvægt að Reykjavíkurborg skoði að nýju stefnumörkun sína að því er varðar skipulag og lóðaúthlutanir til eldsneytisstöðva. Ein af grunnforsendum þess að virk samkeppni þrífist á eldsneytismarkaðnum er að opinberir aðilar tryggi að lög, reglur og aðgerðir þeirra takmarki ekki samkeppni.

Upplýsingamiðlun Flutningsjöfnunarsjóðs skaðar samkeppni

Tvö álitanna beinast að upplýsingamiðlun Flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara og stjórnskipulagi. Upplýsingamiðlunin felst m.a. í því að sjóðurinn safnar og miðlar til keppinauta á eldsneytismarkaðnum upplýsingum um heildarsölu allra olíufélaganna sem m.a. nýtast félögunum til þess að áætla hlutdeild sína. Eru þessar upplýsingar veittar mánaðarlega. Að mati Samkeppniseftirlitsins er upplýsingamiðlun af þessu tagi ótvírætt skaðleg samkeppni, þegar horft er til þess að eldsneytismarkaðurinn ber ýmis fákeppniseinkenni.

Tilmælin beinast einnig að því að samkvæmt lögum um sjóðinn er kveðið á um samstarf keppinauta um tilnefningu stjórnarmanns í sjóðnum, eða að einn fulltrúi sitji í stjórninni frá hverju félagi. Þegar rannsókn eftirlitsins hófst sátu fulltrúar keppinauta saman í stjórninni, en nú er einn stjórnarmaður tilnefndur sameiginlega. Mælist Samkeppniseftirlitið til þess að lögum verði breytt þannig að olíufélögin hafi ekki aðkomu að stjórn sjóðsins.

Af þessum sökum beinir Samkeppniseftirlitið þeim tilmælum til;

  • Flutningsjöfnunarsjóðs að hann miðli ekki upplýsingum til keppinauta á eldsneytismarkaði, sem til þess eru fallnar að skaða samkeppni. (sjá álit nr. 4/2017),
  • samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að hann beiti sér fyrir því að Flutningsjöfnunarsjóður miðli ekki upplýsingum sem skaðað geta samkeppni og að hann beiti sér fyrir breytingum á ákvæðum laga nr. 103/1994, um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, þannig að skipan í stjórn sjóðsins verði með öllu óháð fyrirtækjum sem starfa á eldsneytismarkaðnum (sjá álit nr. 3/2017).

Aðrar mögulegar aðgerðir í kjölfar markaðsrannsóknar

Samkeppniseftirlitið hefur með fyrrnefndum fjórum álitum mælst til aðgerða sem eftirlitið telur brýnt að opinberir aðilar grípi þegar til í því skyni að bæta samkeppni á eldsneytismarkaðnum. Til viðbótar þessu er eftirlitið nú að leita viðhorfa aðila á markaðnum um mögulegar aðgerðir af þeirra hálfu til að tryggja að sem minnstar aðgangshindranir séu inn á markaðinn, einkum á birgða- og heildsölustigi, og stuðla að sjálfstæði keppinauta. Viðbrögð skipulagsyfirvalda við framangreindum tilmælum geta haft þýðingu við úrlausn á þessum þætti málsins.

Samkeppniseftirlitið mun gera frekari grein fyrir stöðu rannsóknarinnar um mitt þetta ár.

Bakgrunnur og grundvöllur tilmælanna

Framangreind álit eru sett fram eftir umsagnarferli þar sem hagsmunaaðilum og stjórnvöldum gafst kostur á að gera athugasemdir við frummat Samkeppniseftirlitsins, sem birt var með skýrslu í lok árs 2015. Jafnframt var þeim gefinn kostur á að taka þátt í frekari umræðum á ráðstefnu um samkeppni á eldsneytismarkaði haustið 2016. Nánar má fræðast um markaðsrannsóknina hér.

Álitin eru sett fram með stoð í 18. gr. og c-liðar 1. mgr. 8. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 8. gr. ber Samkeppniseftirlitinu að gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni og benda stjórnvöldum á leiðir til að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang að mörkuðum. Samkvæmt 18. gr. laganna er Samkeppniseftirlitinu falið vekja athygli ráðherra á því í áliti ef það telur að ákvæði laga eða stjórnvaldsfyrirmæla stríði gegn markmiði laganna eða torveldi frjálsa samkeppni.