22.3.2022

Sameiginlegar leiðbeiningar evrópskra samkeppnisyfirvalda vegna áhrifa stríðsaðgerða Rússlands í Úkraínu

  • Untitled-design-77-

Evrópsk samkeppnisyfirvöld hafa birt sameiginlega yfirlýsingu þar sem þau fordæma hernaðaraðgerðir Rússlands gegn Úkraínu, og lýsa yfir fullum stuðningi við Úkraínu og íbúa þess. Samkeppnisyfirvöld eru jafnframt meðvituð um þau efnahagslegu og félagslegu áhrif sem ástandið kann að hafa bæði fyrir Úkraínu og Evrópska efnahagssvæðið.

Af þessu tilefni vekja hin evrópsku samkeppnisyfirvöld athygli á því að markmið gildandi samkeppnisreglna og eftirfylgni við þær er mikilvæg við þær erfiðu aðstæður sem fyrirtæki og efnahagslíf þjóða standa nú frammi fyrir. Jafnframt eru samkeppnisyfirvöld meðvituð um að þessar fordæmalausu aðstæður geta kallað á að fyrirtæki bregðist við alvarlegum röskunum, sem stríðið og/eða þvingunaraðgerðir á innri markaðnum kunna að valda.

Í Evrópu er almennt kveðið á um að fyrirtæki meti sjálf hvort undantekningarheimildir til samstarfs fyrirtækja eigi við í hverju tilviki (oft nefnt sjálfsmat), en kveðið er á um undantekningarheimild þessa í 15. gr. íslenskra samkeppnislaga (nr. 44/2005), sbr. einnig almennar leiðbeiningar Samkeppniseftirlitsins frá desember 2020.

Aðgerðir fyrirtækja sem eru algerlega nauðsynlegar, gilda í afmarkaðan tíma og beinast sérstaklega að því komast hjá alvarlegum erfiðleikum vegna stríðsins eða áhrifa þess, eru líklegar til að falla undir framangreindar undantekningarheimildir. Samkeppnisyfirvöld munu því ekki aðhafast vegna aðgerða fyrirtækja sem falla undir framangreindar undantekningarheimildir.

Ef fyrirtæki eru óviss, í kjölfar fyrrgreinds sjálfsmats, um hvort fyrirhugað samstarf þeirra uppfylli skilyrði samkeppnisreglna geta þau leitað til viðkomandi samkeppnisyfirvalda og fengið óformlega leiðbeiningu.

Í yfirlýsingunni er einnig tekið fram að það sé gríðarlega mikilvægt að tryggja að nauðsynjavörur séu bæði fáanlegar og á samkeppnishæfu verði, og að núverandi ástand sé ekki notað til þess að grafa undan samkeppnishæfni og virkni markaða. Samkeppnisyfirvöld muni því ekki hika við að grípa til aðgerða gegn fyrirtækjum sem verða uppvís að því að nýta sér núverandi ástand til þess að koma á fót ólögmætu samráði eða misnota markaðsráðandi stöðu sína.

Yfirlýsingin er aðgengileg á ensku hér.

Af þessu tilefni vill Samkeppniseftirlitið einnig vekja athygli á upplýsingasíðu sem opnuð var á heimasíðu þess síðasta haust, þar sem gefnar eru leiðbeiningar um þau mörk sem samkeppnisreglur setja starfi hagsmunasamtaka fyrirtækja, m.a. við umfjöllun um verðlagningu vara og þjónustu.