2.1.2024

Samkeppniseftirlitið birtir greiningu á reiknuðum ábata vegna íhlutunar eftirlitsins

Ábati vegna íhlutunar Samkeppniseftirlitsins um 18-30-föld fjárframlög til eftirlitsins árin 2013-2022, eða um 0,31-0,52% af vergri landsframleiðslu á sama tímabili

Þessi frétt var uppfærð þann 11. janúar 2024, sjá neðst.

Síðustu misseri hefur Samkeppniseftirlitið greint reiknaðan ábata vegna íhlutunar eftirlitsins á sjálfstæðan hátt, en Ríkisendurskoðun hefur m.a. lagt áherslu á að slíkt mat fari fram. Samkeppniseftirlitið hefur birt rit nr. 4/2023, Reiknaður ábati vegna íhlutunar Samkeppniseftirlitsins, 2013-2022, rit nr. 4/2023 Reiknaður ábati vegna íhlutunar Samkeppniseftirlitsins, 2013-2022, þar sem heildarniðurstöður greiningarinnar eru birtar í fyrsta skipti. Áætlað er að Samkeppniseftirlitið muni gefa út skýrslu á hverju ári héðan í frá þar sem reiknaður ábati er birtur, og er þessi skýrsla sú fyrsta af þeim.

Greining þessi styðst við viðmið OECD, Guide for helping competition authorities assess the expected impact of their activities . Byggja viðmiðin á vinnu OECD, fræðimanna, samkeppnisyfirvalda í ýmsum aðildarlanda OECD og fyrri rannsóknum á efnahagslegum áhrifum samkeppniseftirlits. Einnig er byggt á þeirri aðferðafræði sem samkeppnisdeild framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins notast við í sambærilegri greiningu, en þar er einnig byggt á leiðbeiningum OECD í grunninn.

Reiknaður ábati (ábati viðskiptavina fyrirtækja, þ.e. endanlegra neytenda og annarra fyrirtækja) vegna íhlutunar Samkeppniseftirlitsins vegna samráðs, misnotkunar á markaðsráðandi stöðu og samkeppnishamlandi samruna á tíu ára tímabilinu 2013-2022 nam 0,31-0,52% af vergri landsframleiðslu á sama tímabili, eða sem nemur 18-30-földum fjárframlögum til stofnunarinnar á tímabilinu.

Reiknaður ábati var að meðaltali 10,0-16,9 ma.kr. á ári á tímabilinu 2013-2022, þar af 4,4-7,0 ma.kr. vegna íhlutunar í samráðsbrot, 1,8-3,6 ma.kr. vegna íhlutunar í misnotkun á markaðsráðandi stöðu og 3,8-6,3 ma.kr. vegna þess að samkeppnishamlandi samrunar voru ógiltir eða þeim sett skilyrði. Fjárhæðir eru á verðlagi ársins 2022.

Samsvara framangreindar niðurstöður því að árlegur reiknaður ábati hafi numið um 30-50 þúsund krónur á hvern landsmann, miðað við mannfjölda og verga landsframleiðslu á árinu 2022. Sé þeim ábata sem stefnt er að í fjármálaáætlun skipt jafnt á alla landsmenn má ætla að hlutur hvers gæti numið 50 þúsund krónum á ári.

Bakgrunnsupplýsingar

Reiknaður ábati er metinn af íhlutun eftirlitsins vegna samráðs, misnotkunar á markaðsráðandi stöðu og samkeppnishamlandi samruna. Hafa ber í huga að verkefni Samkeppniseftirlitsins eru mun víðfeðmari. Til að mynda skal Samkeppniseftirlitið gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni, vekja athygli ráðherra á ákvæðum laga sem ganga gegn markmiðum samkeppnislaga og benda stjórnvöldum að öðru leyti á leiðir til að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaði. Þá hefur Samkeppniseftirlitið heimild til að grípa til íhlutunar til að afstýra eða vinna gegn samkeppnishömlum sem ekki stafa af brotum fyrirtækja á samkeppnislögum heldur leiða af markaðsbrestum sem hindra að almenningur og atvinnulífið njóti ábata af virkri samkeppni á viðkomandi markaði. Er um að ræða lagaheimild sem leyfir markaðsrannsóknir og aðgerðir þar sem áherslan er ekki á að uppræta brot í fortíðinni heldur stuðla að betri virkni markaða til frambúðar. Loks má nefna að eftirlitið hefur almennu málsvarahlutverki að gegna og tekur þátt í alþjóðasamstarfi sem stuðlar að einsleitni í beitingu samkeppnisreglna og styður þar með við samkeppnishæfni. Áhrif framangreindra verkefna eru ekki meðtalin í greiningunni. Við þetta má bæta að framangreindum viðmiðum OECD er ekki ætlað að meta varnaðaráhrif samkeppnislaganna eða framkvæmdar samkeppnisyfirvalda.

Samkeppniseftirlitið birti í apríl sl. umræðuskjal nr. 1/2023 , Reiknaður ábati vegna íhlutunar Samkeppniseftirlitsins, drög að aðferðafræði, þar sem aðferðafræði greiningarinnar var lýst og sjónarmiða um hana óskað. Hefur eftirlitið í kjölfarið unnið úr þeim sjónarmiðum. Þá hefur óháður sérfræðingur, dr. Jón Þór Sturluson, deildarforseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík, rýnt aðferðafræði, forsendur og útreikninga, í samræmi við tilmæli Ríkisendurskoðunar.

Í fjármálaáætlun 2024-2028 er sett fram markmið um að reiknaður árlegur ábati vegna ákvarðana Samkeppniseftirlitsins skuli að meðaltali nema 0,5% af vergri landsframleiðslu á undanliðnum 10 árum. Þetta markmið hefur verið óbreytt frá árinu 2018.

Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á störfum Samkeppniseftirlitsins, sem birt var í ágúst 2022, var lögð áhersla á að reglubundið mat á ábata af starfsemi Samkeppniseftirlitsins verði nýtt við skilgreiningu áherslna, markmiða og árangursmælikvarða til framtíðar.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins beitir aðferðum byggðum á viðmiðum OECD til að meta ábata af íhlutun samkeppnisdeildar framkvæmdastjórnarinnar. Framkvæmdastjórn ESB metur það svo að beinn ábati af íhlutunum samkeppnisdeildarinnar hafi á 10 ára tímabilinu 2012 til 2021 numið á bilinu 12 til 21 milljarði evra á ári hverju , eða sem nemur um það bil tvö til þrjú þúsund milljörðum króna.

Fylgigagn: Rit nr.4/2023 reiknaður ábati vegna íhlutunar Samkeppniseftirlitsins, 2013-2022.

Uppfært 11. janúar 2024:

Mánudaginn 8. janúar barst Samkeppniseftirlitinu fyrirspurn frá Morgunblaðinu þar sem óskað er nánari upplýsinga um niðurstöður úr rýni dr. Jóns Þórs Sturlusonar á því mati sem kynnt er í skýrslu nr. 4/2023. Jafnframt var spurt um fyrri útreikninga á ábata af samkeppniseftirliti hér á landi.

Með svari við fyrirspurninni, þann 10. janúar 2024, fylgdi minnisblað dr. Jóns Þórs Sturlusonar, dags. 21. desember 2023, þar sem hann gerir grein fyrir niðurstöðum sínum. Er minnisblaðið jafnframt gert aðgengilegt hér.

Í svarinu er jafnframt bent á að dr. Gylfi Magnússon, nú prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, hafi áður framkvæmt mat á ábata af íhlutunum Samkeppniseftirlitsins, annars vegar árið 2014 og 2016. Nánar er fjallað um þetta í skýrslu nr. 4/2023, málsgrein 17.

Þá er eftirfarandi tekið fram í svarinu:

Vegna umfjöllunar í Morgunblaðinu í morgun (10. janúar 2024) er rétt að halda því til haga að matið tekur til reiknaðs ábata viðskiptavina (þ.e. neytenda og fyrirtækja) af því að Samkeppniseftirlitið stöðvi ólögmætt samráð og misnotkun á markaðsráðandi stöðu og komi í veg fyrir samkeppnishamlandi samruna. Í þágu gagnsæis er matið birt á ákveðnu bili, sem endurspeglar óhjákvæmilega óvissu í matinu. Jafnframt er skýrt tekið fram að matið tekur ekki til heildaráhrifa af samkeppniseftirliti, sem endurspeglast m.a. í því að varnaðaráhrif af íhlutunum eða öðru starfi eftirlitsins eru ekki metin.

Þessi aðferðafræði er hin sama og stuðst hefur verið við þegar ábati af samkeppniseftirliti er metinn annars staðar í heiminum. Byggja viðmiðin á rannsóknum fræðimanna og samkeppnisyfirvalda í ýmsum aðildarlanda OECD. Sérstaklega er horft til leiðbeininga sem OECD gaf út árið 2014 ( Guide for helping competition authorities assess the expected impact of their activities ).

Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins er til dæmis rakið að samkeppnisdeild framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og hollensk, bresk og ungversk samkeppnisyfirvöld hafi unnið og birt slíkar greiningar undanfarin ár. Hafði Samkeppniseftirlitið m.a. hliðsjón af þessum greiningum. Til viðbótar var við undirbúning matsins kallað eftir sjónarmiðum um aðferðafræðina, sbr. frétt á þessari slóð, frá 19. apríl 2023.

Þá voru niðurstöðurnar rýndar, eins og áður segir. Í fyrrgreindu minnisblaði dr. Jóns Þór Sturlusonar kemur m.a. fram að hann geri ekki athugasemdir við forsendurnar, „en þær byggja að öllu leyti á aðferðarfræði sem OECD hefur mælt með og einhverjum tilfellum nánar útfærðri aðferðafræði framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem leiðir til varfærnari niðurstöðu“.

Við þessa vinnu var jafnframt tekið mið af tilmælum Ríkisendurskoðunar í stjórnsýsluúttekt sem birt var haustið 2022, en þar lagði Ríkisendurskoðun áherslu á ábatamat af þessu tagi, þar sem forsendur væru birtar og rýndar.“