14.11.2022

Samkeppniseftirlitið heimilar samruna Síldarvinnslunnar og Vísis

Víðtæk hagsmunatengsl í sjávarútvegi tekin til skoðunar

  • Sildarvinnslan-visir

Með ákvörðun nr. 28/2022 er tekin afstaða til kaupa Síldarvinnslunnar á öllu hlutafé í útgerðarfélaginu Vísi, en í kaupunum felst samruni í skilningi samkeppnislaga. Niðurstaða rannsóknarinnar er að ekki séu forsendur til íhlutunar í málinu.

Í fyrri ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins er varða Síldarvinnsluna hefur eftirlitið aflað upplýsinga og sjónarmiða um tengsl Síldarvinnslunnar við Samherja hf. og Gjögur hf./Kjálkanes ehf., en slíkt hefur þýðingu fyrir úrlausn samrunamála. Hafa rannsóknir leitt í ljós talsverð stjórnunar-, eigna- og viðskiptatengsl milli framangreindra aðila sem fela í sér vísbendingar um að stofnast hafi til yfirráða í Síldarvinnslunni umfram það sem áður hefur verið greint frá í tilkynningum um samruna.

Samruni einnig skoðaður miðað við víðtækari eignatengsl

Þær upplýsingar sem fyrir liggja í þessu samrunamáli gefa áfram til kynna eigna-, stjórnunar- og viðskiptatengsl milli Síldarvinnslunnar, Samherja og Gjögur/Kjálkanes. Af þeim sökum voru samkeppnisleg áhrif samrunans tekin til athugunar út frá tveimur sjónarhornum, þ.e. annars vegar miðað við samrunann eins og hann var tilkynntur eftirlitinu og hins vegar miðað við möguleg sameiginleg yfirráð Samherja og tengdra félaga yfir Síldarvinnslunni.

Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að ekki séu forsendur til íhlutunar, hvort sem litið er til hinna þrengri eða víðtækari yfirráða. Þannig eru ekki forsendur til þess að ætla að markaðsráðandi staða sé að myndast eða styrkjast, auk þess sem breyting á samþjöppun vegna kaupa á Vísi er undir þeim viðmiðum sem stuðst er við í evrópskum samkeppnisrétti. Þá gefa fyrirliggjandi gögn ekki til kynna að samkeppni raskist að öðru leyti.

Samspil samkeppnislaga og laga um fiskveiðistjórnun

Í ákvörðuninni er fjallað um samspil samkeppnislaga og ákvæða um hámark aflahlutdeildar í lögum um fiskveiðistjórnun (kafli 1.1). Þar á meðal er vakin athygli á því að yfirráð eru ekki skilgreind með sama hætti í lögunum tveimur.

Það er verkefni Fiskistofu að fylgja eftir að farið sé að ákvæðum fiskveiðistjórnunarlaga um hámarks aflahlutdeild. Fyrir liggur í málinu að aflahlutdeild samrunaaðila kunni að fara yfir hámarkshlutdeild samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, hvort sem miðað er við þau yfirráð sem samrunaaðilar byggja á í samrunaskrá eða möguleg víðtækari yfirráð. Við mat og mögulega úrlausn á þessu kemur til kasta Fiskistofu. Í tilefni af málinu hefur Samkeppniseftirlitið átt fund með Fiskistofu og gert henni grein fyrir vísbendingum um víðtækari yfirráð. Mun Samkeppniseftirlitið veita Fiskistofu frekari upplýsingar, ef nauðsynlegt þykir.

Með ákvörðun þessari er ekki tekin endanleg ákvörðun um yfirráð yfir Síldarvinnslunni í skilningi samkeppnislaga. Kunna málefni þessi því að koma til frekari rannsóknar á síðari stigum. Áður en rannsókn á samrunanum hófst kynnti Samkeppniseftirlitið jafnframt ákvörðun um að hefja heildstæða athugun á stjórnunar- og eignatengslum sjávarútvegsfyrirtækja, eins og fram kom í frétt á heimasíðu eftirlitsins frá 5. október 2022.