27.10.2021

Samkeppniseftirlitið leitar frekari sjónarmiða vegna samruna Ferðaskrifstofu Íslands og Heimsferða

  • Solarstrond

Samkeppniseftirlitið hefur til meðferðar fyrirhuguð kaup Ferðaskrifstofu Íslands ehf. á rekstri Heimsferða ehf. Um er að ræða aðra tilkynningu fyrirtækjanna vegna samrunans en fyrirtækin drógu til baka fyrri tilkynninguna í kjölfar útgáfu andmælaskjals eftirlitsins og sáttarviðræðna sem skiluðu ekki niðurstöðu, samanber frétt á vef Samkeppniseftirlitsins 2. september síðastliðinn. Fyrirtækin starfrækja bæði ferðaskrifstofur sem selja ferðir frá Íslandi undir vörumerkjunum Úrval Útsýn, Sumarferðir, Plúsferðir og Heimsferðir.

Samkeppniseftirlitið hefur það hlutverk samkvæmt samkeppnislögum að rannsaka samruna og ber í því sambandi að leggja mat á það hvort samruni fyrirtækja raski samkeppni með umtalsverðum hætti og skaði þar með hagsmuni almennings eða atvinnulífs. Við mat á áhrifum samruna aflar Samkeppniseftirlitið gagna frá aðilum sem eftir atvikum geta verið viðskiptavinir eða keppinautar samrunaaðila, eða tengst mörkuðum málsins á einhvern annan hátt.

Samkeppniseftirlitið veitir hér með þeim sem telja sig hafa hagsmuna að gæta vegna samrunans færi á því að koma að sjónarmiðum vegna hans. Þess er óskað að umsagnir vegna samrunans berist eigi síðar en kl. 16:00, þann 3. nóvember nk. á netfangið magnus@samkeppni.is.

Hér má nálgast umsagnarbeiðni og Excel skjal til útfyllingar.

Fylgiskjöl: