15.6.2020

Samkeppniseftirlitið veitir Festi undanþágu vegna kaupa á verslun Super1 að Hallveigarstíg

Samkeppniseftirlitinu hefur borist samrunatilkynning vegna kaupa Festi fasteigna ehf. á matvöruverslun Ísborgar verslana ehf. að Hallveigarstíg 1 Reykjavík. Verslunin hefur verið rekin undir heitinu Super1. Festi fasteignir er dótturfélag Festi hf. sem á og rekur m.a. verslanir Krónunnar og N1. Hyggst Festi reka verslun undir merkjum Krónunnar í húsnæðinu. Samhliða samrunatilkynningunni hefur Festi óskað eftir undanþágu frá ákvæði samkeppnislaga sem bannar framkvæmd samruna á meðan eftirlitið fjallar um hann. Beiðnin er rökstudd m.a. með vísan til þess að bið eftir endanlegri niðurstöðu myndi líklega leiða til röskunar á rekstri verslunarinnar vegna bágrar fjárhagsstöðu seljanda.

Miðað við framkomin gögn er það mat Samkeppniseftirlitsins að ljóst sé að fjárhagsleg staða Ísborgar verslana ehf. sé slæm og fyrirsjáanlegt sé að fyrirtækið geti ekki viðhaldið rekstri verslunarinnar að Hallveigarstíg 1 til lengri tíma. Af þeim sökum er hætta á því að samkeppni á dagvörumarkaði í næsta nágrenni verslunarinnar muni verða fyrir a.m.k. tímabundnum skaða verði ekki veitt undanþága til þess að framkvæma samrunann. Til þess að tryggja framangreint er að mati Samkeppniseftirlitsins mikilvægt að tryggt sé að rekstri verslunarinnar sé viðhaldið með fullnægjandi hætti á þeim tíma sem rannsókn eftirlitsins á samrunanum tekur. Það er því skilyrði og forsenda undanþágunnar að tryggt sé að verslunin sé í rekstri á tímabilinu og að samkeppni og neytendur verði ekki fyrir skaða vegna framkvæmdar samrunans. Það er jafnframt skilyrði undanþágunnar að samrunaaðilar ábyrgist að ekki verði gripið til aðgerða sem geri það ómögulegt að vinda ofan af samrunanum komi til þess að það þurfi að ógilda hann.

Samkeppniseftirlitið telur því forsendur til þess að veita undanþáguna með framangreindum skilyrðum.

Þeim sem vilja koma á framfæri athugasemdum vegna samrunans er bent á að senda slíkar athugasemdir á netfangið samkeppni@samkeppni.is fyrir 23. júní nk.

Bakgrunnsupplýsingar

Aðdraganda þessa máls má rekja til þess að með sátt við Haga hf., dags. 11. september 2018, samþykkti Samkeppniseftirlitið samruna félagsins við Olíuverzlun Íslands hf. og DGV ehf., sbr. ákvörðun nr. 9/2019. Eitt af skilyrðum sáttarinnar var að Hagar myndu selja frá sér tilteknar verslanir Bónuss á höfuðborgarsvæðinu. Kaupandi þeirra verslana var Ísborg ehf. móðurfélag Ísborgar verslana ehf. Vorið 2019 hóf fyrirtækið rekstur á þremur verslunum undir vörumerkinu Super1 sem áður voru Bónusverslanir, þ.e. á Smiðjuvegi í Kópavogi og Faxafeni og Hallveigarstíg í Reykjavík. Rekstur þeirra gekk ekki sem skyldi og hefur Ísborg þegar lokað verslununum á Smiðjuvegi og Faxafeni.

Í tengslum við yfirtöku á verslunum Haga undirgekkst Ísborg skilyrði með sátt við Samkeppniseftirlitið, dags. 29. nóvember 2018, sem ætlað var að tryggja rekstur lágvöruverðsverslana á staðsetningunum í tiltekinn lágmarkstíma. Var jafnframt kveðið á um það í sáttinni að ef eignirnar yrðu seldar til þriðja aðila á þessu tímabili þyrfti kaupandi þeirra að uppfylla sömu skyldur og samkvæmt sáttinni við Haga frá 11. september 2018.

Af þeim sökum eru kaup Festi á verslun Ísborgar að Hallveigarstíg ekki aðeins háð samrunaeftirliti samkvæmt 17. gr. samkeppnislaga heldur jafnframt því að óháður kunnáttumaður og Samkeppniseftirlitið meti Festi sem hæfan kaupanda í samræmi við skilyrði framangreindra sátta. Þar er m.a. kveðið á um kaupandi skuli teljast óháður Högum og reka lágvöruverðsverslun.

Óháður kunnáttumaður og Samkeppniseftirlitið lögðu mat á og töldu Festi hæfan kaupanda í skilningi sáttarinnar frá 29. nóvember 2020.

Af framangreindu er ljóst innkoma nýs aðila á dagvörumarkaði, á grundvelli þeirra skilyrða sem sett voru með fyrrgreindri sátt við Haga, hefur ekki gengið sem skyldi. Samkeppniseftirlitið mun taka til nánari skoðunar hvaða lærdóm megi draga af þessu. Jafnframt mun eftirlitið stuðla að því að umrædd skilyrði nái þrátt fyrir þetta þeim tilgangi sínum að efla og verja umrædda samkeppni. 


Tengd skjöl 
Samrunaskrá
Undanþága vegna framkvæmdar samruna
Mat á hæfi Festi sem kaupanda