20.1.2022

Samkeppniseftirlitinu hefur borist samrunatilkynning vegna kaupa Ardian á Mílu

  • Mila

Samkeppniseftirlitinu barst í gær styttri samrunatilkynning vegna kaupa sjóðastýringarfyrirtækisins Ardian France SA á Mílu ehf., dótturfélagi Símans hf. Heimilt er að tilkynna samruna með styttri tilkynningu að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Samkeppniseftirlitið, sem hefur átt í samskiptum við samrunaaðila í aðdraganda tilkynningarinnar, mun næst fara yfir tilkynninguna sem nú hefur verið móttekin og meta hvort hún sé fullnægjandi, þ.e. hvort hún innihaldi allar nauðsynlegar upplýsingar um samrunann eins og reglur kveða á um.

Tímafrestir til rannsóknar á samrunanum byrja ekki að líða fyrr en fullnægjandi tilkynning hefur borist. Staða málsins mun þannig fyrst birtast á nýlegri upplýsingasíðu um stöðu samruna þegar tilkynning hefur verið metin fullnægjandi.

Samrunatilkynning Ardian og Mílu kemur í kjölfar þess að samrunaaðilar upplýstu um viðskiptin upphaflega með bréfi þann 1. nóvember 2021, en tóku þá fram að samruninn væri ekki tilkynningarskyldur að þeirra mati vegna lítillar starfsemi Ardian á Íslandi.

Samkeppniseftirlitið kallaði eftir tilkynningu vegna samrunans 19. nóvember síðastliðinn. Að mati Samkeppniseftirlitsins var tilefni til þess að óska eftir samrunaskrá vegna kaupanna og taka þau til skoðunar á grundvelli samrunaákvæða samkeppnislaga eins og lögin heimila.

Samrunaaðilar upplýstu aftur á móti þann 22. desember síðastliðinn að velta Ardian og dótturfélaga væri meiri hérlendis en þeir hefðu áður talið. Samruninn væri því tilkynningarskyldur og aðilum skylt að tilkynna samrunann til Samkeppniseftirlitsins í samræmi við samkeppnislög.

Nafnspjald