17.3.2021

Samruni Norðlenska, Kjarnafæðis og SAH afurða

Samkeppniseftirlitið leitar sjónarmiða vegna mögulegra skilyrða sem unnt væri að setja samrunanum

Samkeppniseftirlitið hefur nú til skoðunar hvort og þá hvaða skilyrði þurfi að setja fyrir samruna Norðlenska matborðsins ehf., Kjarnafæðis hf. og SAH afurða ehf., en samruni þessara félaga er nú til rannsóknar. 

Miða möguleg skilyrði að því að tryggja samkeppni á markaðnum neytendum og bændum til hagsbóta. Viðræður við samrunaaðila um þetta standa nú yfir.

Öflun sjónarmiða frá viðskiptavinum, keppinautum og neytendum er mikilvægur þáttur í athugun á því hvort þær tillögur að skilyrðum sem hafa verið lagðar fram af hálfu samrunaaðila séu hæfilegar og líklegar til að ná markmiði sínu. Í því skyni að auðvelda umsagnaraðilum að koma á framfæri sjónarmiðum sínum hefur Samkeppniseftirlitið tekið saman meðfylgjandi minnisblað þar sem gerð er grein fyrir frummati eftirlitsins um samkeppnisleg áhrif samrunans og skilyrðum sem kemur til álita að setja samrunanum til að koma í veg fyrir þau áhrif.

Þess er óskað að hagaðilar og aðrir áhugasamir komi á framfæri sjónarmiðum sínum við möguleg skilyrði sem unnt væri að setja samrunanum eigi síðar en 22. mars nk. Umsögnum skal skila rafrænt á netfangið samkeppni@samkeppni.is. Til viðbótar mun Samkeppniseftirlitið sérstaklega leita eftir sjónarmiðum bænda vegna þessa.

Í megindráttum felst frummat Samkeppniseftirlitsins á skaðlegum áhrifum samrunans í áhyggjum af eftirfarandi:

 1. Hárri markaðshlutdeild samrunaaðila í slátrun og heildsölu og vinnslu kjöts sem leitt getur til alvarlegrar röskunar á samkeppni til tjóns fyrir neytendur og bændur.
 2. Sameinað félag geti skapað hindranir fyrir minni keppinauta í slátrun eða vinnslu og að samruninn kunni að leiða til þess að minni keppinautur hverfi af markaðnum í kjölfar samrunans.
 3. Bændur muni ekki njóta nægjanlegs ábata af væntri hagræðingu með t.d. hærra afurðaverði, þar sem þeim muni ekki gefast færi á að sýna sameinuðu fyrirtæki nægilegt aðhald. Þá vinni samkeppnishindranir sem af samrunanum leiða gegn því að ábati hagræðingar skili sér til neytenda.
 4. Valkostum bænda muni í kjölfar samrunans fækka og þar með muni samningsstaða þeirra versna.

Þau skilyrði sem til skoðunar er að setja samrunanum lúta einkum að eftirfarandi þáttum:

 1. Samningsforræði og aðhald bænda verði styrkt m.a. með eftirfarandi:
  1.  Að þeir eigi skýran rétt á semja við sameinað fyrirtæki um afmarkaða þjónustu, svo sem slátrun, en geti tekið sjálfstæða ákvörðun um hvernig vinnslu verði háttað, s.s. með heimtöku eða samningum um vinnslu eða sölu til þriðju aðila.
  2. Bann við samningum eða öðrum aðgerðum sem koma í veg fyrir að bændur færi viðskipti sín frá sameinuðu fyrirtæki.
 2. Skilyrði um sanngjarna verðlagningu slátrunar og vinnslu, en það er liður í að styrkja aðhald bænda skv. a-lið og gagnsæi í rekstrinum. Í fyrrgreindu minnisblaði er fjallað leiðir til að aðgreina kostnað slátrunar og vinnslu o.fl. í þessu skyni.
 3. Til skoðunar eru skilyrði sem miða að því að rjúfa á eignartengsl sameinaðs fyrirtækis við aðrar kjötafurðastöðvar, þ.e. Fjallalamb og Sláturfélag Vopnafjarðar, eða tryggja samkeppnislegt sjálfstæði þeirra að öðru leyti. Jafnframt er til skoðunar að setja skilyrði til að tryggja áframhaldandi viðskipti sameinaðs fyrirtækis við Sláturfélag Vopnafjarðar en meginhluti framleiðslu þess félags er seldur til Kjarnafæðis til frekari vinnslu í dag.
 4. Við rannsókn samrunans kom í ljós að sláturhús B. Jensen og svínabúið Hlíð hafa haft talsverða hagsmuni af viðskiptum við Kjarnafæði. Til að koma í veg fyrir mögulega útilokun keppinauta á markaðnum er til skoðunar hvort tilefni sé til þess að setja skilyrði um áframhaldandi viðskipti sameinaðs fyrirtækis við bæði B. Jensen og svínabúið Hlíð.
 5. Loks eru einnig settar fram tillögur að skilyrðum um samkeppnislegt sjálfstæði sameinaðs fyrirtækis, eftirlit með mögulegum skilyrðum og viðurlög við brotum á þeim.

Við rannsókn málsins fékk Samkeppniseftirlitið Zenter til að framkvæma könnun á meðal bænda, sem aðgengileg er hér, en vikið er að helstu niðurstöðum könnunarinnar í meðfylgjandi minnisblaði.

Jafnframt framkvæmdi Zenter könnun á meðal neytenda, sem aðgengileg er hér.

Bakgrunnsupplýsingar

Samkeppniseftirlitið hefur að undanförnu haft fyrirhugaðan samruna Norðlenska matborðsins ehf., Kjarnafæðis hf. og SAH afurða ehf. til rannsóknar. Þann 26. janúar síðastliðinn sendi Samkeppniseftirlitið samrunaaðilum frummat sitt á áhrifum samrunans, svokallað andmælaskjal. Í andmælaskjalinu var bent á samkeppnishindranir sem af samrunanum kunna að leiða og samrunaaðilum gefið tækifæri til að bregðast við frummatinu. Samrunaaðilar hafa brugðist við frummati Samkeppniseftirlitsins með því annars vegar að koma á framfæri sjónarmiðum og gögnum, og hins vegar með því að leggja til og óska eftir viðræðum um möguleg skilyrði sem ætlað er að leysa úr þeim áhyggjum sem Samkeppniseftirlitið hefur sett fram.