23.4.2024

Samruni Regins og Eikar – sáttaviðræður, ósk um sjónarmið

  • Reginn

Samkeppniseftirlitið hefur undanfarið haft til rannsóknar yfirtöku Regins hf. á Eik fasteignafélagi hf. Fyrr í málinu gaf eftirlitið út andmælaskjal um skaðleg áhrif samrunans, þar sem að öllu óbreyttu þyrfti að íhlutast vegna viðskiptanna. Í kjölfarið óskaði Reginn hf. eftir sáttaviðræðum við Samkeppniseftirlitið sem nú standa yfir. 

Reginn hf. hefur lagt fram tillögur að skilyrðum fyrir mögulega sátt:

  • Samantekt um tillögur Regins hf. og helstu álitaefni eru reifuð hér 
  • Drög Regins hf. að sátt og skilyrðum, án trúnaðarupplýsinga eru hér 

Þegar samrunaaðilar leggja fram tillögur að breytingum eða skilyrðum í tilefni af frummati samkeppnisyfirvalda er að jafnaði framkvæmt svokallað markaðspróf (e. market test) á viðkomandi tillögum. Í markaðsprófi felst meðal annars að hagaðilum eru kynntar viðkomandi tillögur og óskað sjónarmiða þeirra.

Samkeppniseftirlitið hefur sent helstu markaðsaðilum bréf með ósk um sjónarmið og svör um álitaefni er tengjast sáttatillögunum. Bréfið inniheldur efnislega það sama og samantektin.

Öllum hagaðilum er hér með gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum um sáttatillögur Regins hf. Samkeppniseftirlitið vísar sérstaklega til umfjöllunar í samantektinni um tillögur félagsins að aðgerðum til að eyða neikvæðum áhrifum samrunans á samkeppni. Óskað er eftir sjónarmiðum og sérstökum umsögnum um þau álitaefni og þær spurningar sem reifaðar eru í samantektinni.

Þar sem skammur frestur er eftir í samrunamáli Regins hf. og Eikar fasteignafélags hf. er frestur til þess að koma á framfæri sjónarmiðum til og með mánudeginum 29. apríl nk. og skulu þau berast á gogn@samkeppni.is merkt Reginn og Eik – markaðspróf.

Árétta ber að það frummat Samkeppniseftirlitsins í málinu sem reifað er í skjalinu að framan getur tekið breytingum með hliðsjón af framkomnum sjónarmiðum samrunaaðila og sjónarmiðum sem berast kunna í yfirstandandi markaðsprófun, ef til þess standa rök og upplýsingar. Þá hefur Reginn, eins og áður segir, óskað eftir sáttaviðræðum í málinu, Samkeppniseftirlitið fallist á slíkar viðræður, og félagið lagt fram sáttatillögur. Lyktir málsins ráðast því annars vegar af því hvert endanlegt mat Samkeppniseftirlitsins á samkeppnislegum áhrifum yfirtökunnar verða miðað við fyrirliggjandi gögn, og hins vegar vilja aðila til að setja samrunanum skilyrði sem miða að því að tryggja virka samkeppni og hagsmuni viðskiptavina og almennings af samkeppni í útleigu atvinnuhúsnæðis.