3.6.2021

Samtal um samkeppni: Vel sóttur umræðufundur um meðferð samrunamála

Þriðjudaginn 1. júní sl. hélt Samkeppniseftirlitið opinn veffund um meðferð samrunamála, en rúmlega 40 manns tóku þátt í fundinum.

Á fundinum fjallaði Jani Ringborg, sérfræðingur hjá samkeppnisdeild framkvæmdastjórnar ESB, um rannsókn samrunamála. Einkum rakti hann fyrirkomulag forviðræðna (e. pre-notification talks), en slíkar viðræður eiga sér stað í flestum málum á vettvangi framkvæmdastjórnarinnar. Í þessu sambandi reifaði Jani hvaða gögn lægju til grundvallar slíkum viðræðum, hvaða tíma viðræðurnar tækju og hverju þær gætu skilað.

Í máli Jani kom fram mikilvægi þess fyrir skilvirka meðferð samrunamála að samrunaaðilar veiti greinargóðar upplýsingar og gögn í forviðræðum. Það verklag stuðlar að því að málið sé vel upplýst strax við mótttöku samrunatilkynningar og um leið gerir það eftirlitinu kleift að skipuleggja vinnu sína betur.

Einnig reifaði Jani að forviðræður væru vettvangur fyrir hreinskiptið samtal um gagnaöflun, skipulag rannsóknar og í sumum tilvikum mögulegar samkeppnishindranir og lausnir á þeim. Jani lagði þó áherslu á að þess væri ekki að vænta að samkeppnisyfirvöld væru í stakk búin að taka skýra afstöðu til álitaefna í forviðræðum, enda rannsókn ekki hafin.

Þá kom fram að forviðræður hefðu leitt til þess að fleiri samrunamál væru afgreidd á I. fasa.

Glærur af fundinum, ásamt upptöku af innleggi Jani Ringborg er aðgengileg hér .

Bakgrunnsupplýsingar:

Fundurinn var sá þriðji í röð umræðufunda um meðferð samrunamála:

  • Fyrsti fundurinn var haldinn þann 16. október 2019, en til grundvallar umræðum á þeim fundi lá minnisblað eftirlitsins um meðferð samruna, reynslu og úrbótatækifæri.
  • Annar fundurinn var haldinn þann 11. desember 2020, en á þeim fundi var kallað eftir umræðum um drög að nýjum samrunareglum. Höfðu drögin áður verið birt til umsagnar og aflað sjónarmiða.

Fundurinn nú var haldinn í ljósi fenginnar reynslu af hinum nýju samrunareglum. Í því sambandi er einnig gagnlegt að leita í reynslubanka framkvæmdastjórnar ESB, en hún hefur mikla reynslu af meðferð samrunamála. Samrunareglur samkeppnislaga hér á landi sækja fyrirmynd sína til samrunareglugerðar ESB.

Þá er rétt að benda á að nýlega birti Samkeppniseftirlitið pistil á heimasíðu sinni (nr. 4/2021), þar sem meðferð samrunamála hér á landi er borin saman við samrunamál í nágrannalöndum. Þar kemur m.a. fram að málshraði hér á landi er sambærilegur við málshraða hjá framkvæmdastjórn ESB, þegar búið er að taka tillit til þess að stór hluti meðferðar hjá framkvæmdastjórninni á sér stað á vettvangi forviðræðna við samrunaaðila, þ.e. áður en tímafrestir í málinu byrja að líða.