23.12.2020

Stór hluti íslenskra stjórnenda telur sig verða varan við samkeppnislagabrot– viðhorfskönnun Samkeppniseftirlitsins

Samkeppniseftirlitið hefur birt skýrslu nr. 3/2020 , Þekking og viðhorf stjórnenda íslenskra fyrirtækja til samkeppnismála. Í skýrslunni eru birtar niðurstöður könnunar um viðhorf stjórnenda fyrirtækja til samkeppnismála. Könnunin var framkvæmd af MMR í lok árs 2019 og byrjun árs 2020 á meðal 8 þúsund íslenskra fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum. Tæplega 2 þúsund fyrirtæki svöruðu könnuninni. Við mótun könnunarinnar hafði Samkeppniseftirlitið til hliðsjónar áþekkar kannanir sem gerðar hafa verið í nágrannalöndum, þ.á m. Noregi, Bretlandi og Hollandi.

Með könnuninni var einkum leitað svara við eftirfarandi atriðum:

 1. Þekking stjórnenda á kjarnareglum samkeppnisréttar, þ.e. íslenskum lögum og reglum EES-samningsins.
 2. Viðhorf stjórnenda til samkeppnisaðstæðna á samkeppnismörkuðum hér á landi.
 3. Að hve miklu leyti samkeppnislög og beiting þeirra komi í veg fyrir samkeppnishindrandi háttsemi fyrirtækja (fælingaráhrif).
 4. Viðhorf stjórnenda til beitingar samkeppnisreglna, hvernig hægt væri að efla samkeppni á hér á landi og áhrif samkeppnislaga að öðru leyti.

Meginniðurstöður könnunarinnar eru eftirfarandi:

 1. Stór hluti íslenskra fyrirtækjastjórnenda telja að samkeppnislagabrot eigi sér stað á sínum markaði.
 2. Samkeppnislög og beiting þeirra dregur úr samkeppnishindrandi háttsemi.
 3. Efla þarf varnaðaráhrif af stjórnvaldssektum Samkeppniseftirlitsins og lækkunar- og niðurfellingarreglum samkeppnislaga.
 4. Efla þarf þekkingu stjórnenda á kjarnaákvæðum samkeppnislaga og EES-samningsins.
 5. Framkvæmd samkeppnislaga og starfsemi Samkeppniseftirlitsins vinnur gegn samkeppnishamlandi háttsemi en ýmis tækifæri eru til þess að efla samkeppni enn frekar.

Með hliðsjón af meginniðurstöðum skýrslunnar telur Samkeppniseftirlitið að niðurstöður könnunarinnar gefi tilefni til þess að huga að a.m.k. eftirtöldum atriðum:

 • Taka þarf alvarlega þá staðreynd að stór hluti stjórnenda íslenskra fyrirtækja telur sig verða varan við samkeppnislagabrot og samkeppnishamlandi háttsemi á sínum markaði. Samkeppniseftirlitið mun huga að þessu við úrlausn og forgangsröðun mála.
 • Mikilvægt er að auka vægi lækkunar- og niðurfellingarreglna samkeppnislaga. Samkeppniseftirlitið vinnur nú að endurskoðun á reglum um þetta og kynningu á þeim.
 • Huga þarf að varnaðaráhrifum stjórnvaldssekta Samkeppniseftirlitsins. Mikilvægt er að huga að þessum varnaðaráhrifum við framkvæmd samkeppnislaga.
 • Auka þarf sýnileika evrópskra samkeppnisreglna og lögsögu ESA á þessu sviði hér á landi.
 • Stjórnvöld þurfa í auknum mæli að grípa til aðgerða til þess að styðja við virka samkeppni. Þær aðgerðir sem þar koma til greina eru:
 1. Að meta samkeppnisleg áhrif laga og reglna (samkeppnismat) og ryðja úr vegi hindrunum á þeim vettvangi,
 2. Að nýta útboð í ríkari mæli til kaupa á vörum og þjónustu,
 3. Að afnema sértækar undanþágur frá samkeppnislögum sem viss fyrirtæki og atvinnugreinar hafa.
 • Efla þarf þekkingu stjórnenda fyrirtækja, meðal annars með því að gera umfjöllun um samkeppnisreglur enn aðgengilegri. Samkeppniseftirlitið, aðilar sem bjóða símenntun og samtök fyrirtækja þurfa að huga að þessu.

Bakgrunnsupplýsingar

Samkeppniseftirlitið hefur að undanförnu látið framkvæma kannanir á meðal almennings og fyrirtækja, með það að markmiði að afla betri upplýsinga um þekkingu og viðhorf þessara aðila til samkeppnismála. Þessar upplýsingar nýtast Samkeppniseftirlitinu, öðrum stjórnvöldum, málsvörum neytenda og þátttakendum í atvinnulífinu við mótun áherslna og stefnumörkunar á þessu sviði. Þá nýtast þessar kannanir við eftirfylgni við markmið sem sett hafa verið fram í fjármálaáætlunum á árunum 2018 til 2020 um að stuðla að aukinni þekkingu á heilbrigðum viðskiptaháttum og draga úr samkeppnislagabrotum. Jafnframt er í fjármálaáætlununum að finna markmið um jákvætt viðhorf almennings til atvinnulífsins og markaðseftirlits.

Gerð er grein fyrir niðurstöðum könnunar um viðhorf almennings til samkeppnismála í skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2019, Viðhorf almennings til samkeppnismála. Könnunin var framkvæmd á fyrri hluta ársins 2019 og var hún byggð á könnun sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur látið gera þrisvar sinnum í öllum aðildarríkjum sambandsins.

Könnunin sem Samkeppniseftirlitið hefur nú birt tekur hins vegar til stjórnenda fyrirtækja og var framkvæmd af MMR í lok árs 2019 og byrjun árs 2020. Um er að ræða netkönnun sem send var til stjórnenda rúmlega 8.000 fyrirtækja, af öllum stærðum og gerðum, en tæplega 2.000 fyrirtæki svöruðu. Við mótun könnunarinnar hafði Samkeppniseftirlitið til hliðsjónar áþekkar kannanir sem gerðar hafa verið í nágrannalöndum, þ.á m. Noregi, Bretlandi og Hollandi.