5.10.2011

Samkeppniseftirlitið ógildir samruna Vodafone og Tals vegna röskunar á samkeppni á fjarskiptamarkaði

Mynd: Samsett meki Tals og VodafoneSamkeppniseftirlitið hefur haft til rannsóknar samruna sem felst í kaupum Eignarhaldsfélagsins Fjarskipta ehf. (Vodafone) á öllu hlutafé í IP-Fjarskiptum ehf. (Tal). Hefur eftirlitið komist að þeirri niðurstöðu, í ákvörðun sem birt er í dag, að samruni Vodafone og Tals myndi leiða til verulega aukinnar samþjöppunar á fákeppnismarkaði og til tvíkeppni á ýmsum undirmörkuðum á sviði fjarskipta. Án íhlutunar yrði staðan sú að aðeins tveir stórir aðilar, Síminn og Vodafone, myndu bjóða heildstæða fjarskiptaþjónustu, auk þess sem nokkrir minni aðilar myndu veita þjónustu á tilteknum afmörkuðum sviðum á smásölumarkaði. Tal er mikilvægur keppinautur bæði Símans og Vodafone þar sem félagið býður upp á heildarlausnir á sviði fjarskipta á smásölumarkaði og er með meiri breidd í þjónustuframboði en aðrir keppinautar Símans og Vodafone. Þessi þrjú fyrirtæki eru hin einu hér á landi sem veita heildarfjarskiptaþjónustu á smásölumarkaði sem m.a. heimili nýta sér. Minni keppinautar á fjarskiptamarkaði eru háðir Símanum og Vodafone um aðgang að fjarskiptanetum þeirra á heildsölustigi til þess að geta veitt fjarskiptaþjónustu í samkeppni við Símann og Vodafone á smásölumarkaði.  Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að samruninn myndi draga verulega úr kaupendastyrk þessara minni keppinauta á heildsölustigi og veikja þannig samkeppnisstöðu þeirra.

Tal hefur einbeitt sér að því að veita Símanum og Vodafone verðsamkeppni og boðið neytendum upp á ýmsar nýjungar. Þá hafa eldri úrlausnir Samkeppniseftirlitsins sýnt að Tal hefur veitt a.m.k. Vodafone mikið samkeppnislegt aðhald, sbr. t.d. ákvörðun þess nr. 27/2009 Brot á ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 36/2008 Samruni Teymis hf. og IP-fjarskipta ehf. og 10. gr. samkeppnislaga. Samruni Tals og Vodafone er því til þess fallinn að valda neytendum alvarlegu samkeppnislegu tjóni á mikilvægu sviði viðskipta.

Samrunaaðilar lögðu fram tillögur að skilyrðum til þess að vinna gegn þeim samkeppnishömlum sem Samkeppniseftirlitið telur stafa af samrunanum. Eins og rökstutt er í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins eru þessar tillögur ófullnægjandi og því ógildir eftirlitið samrunann.

Sjá nánar ákvörðun nr. 31/2011.