2.10.2008

Hæstiréttur staðfestir með dómum sínum í dag að Skífan og Flugþjónustan á Keflavíkurflugvelli hafi brotið gegn samkeppnislögum

Brot Skífunnar talin umfangsmikil og alvarleg

skifaniogigsÍ ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 20/2006 frá 16. júní 2006 var Skífan fundin sek um að hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína og brotið þannig gegn bannákvæðum samkeppnislaga. Þetta gerði Skífan með gerð ólögmætra samninga við Hagkaup um sölu á hljómdiskum og tölvuleikjum, annars vegar á árinu 2003 og hins vegar á árinu 2004, sem báðir fólu í sér einkakaup og samkeppnishamlandi afslætti. Með einkakaupum í þessu samhengi er átt við að Hagkaup skuldbundu sig til að kaupa í heildsölu tiltekið hátt hlutfall af öllum umræddum vörum, eingöngu af Skífunni. Með samningunum voru keppinautar Skífunnar í heildsölu á hinum tilgreindu vörum nánast útilokaðir frá viðskiptum við Hagkaup sem er stór seljandi á m.a. hljómdiskum. Um var að ræða ítrekað brot Skífunnar á samkeppnislögum. Fjallað var um fyrra lögbrot Skífunnar í ákvörðun samkeppnisráðs frá árinu 2001 og hæstaréttardómi frá árinu 2004. Brot Skífunnar á samkeppnislögum sem nú er dæmt fyrir var umfangsmeira en eldra brot fyrirtækisins. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins var Degi Group ehf. (áður Skífunni) gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 65 milljónir kr.

Dagur Group ehf. (sem áður hét Skífan en núna Árdegi ehf.) skaut þessu máli til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem kvað upp sinn úrskurð nr. 4/2006 22. september 2006. Í úrskurði áfrýjunarnefndar var ákvörðun Samkeppniseftirlitsins staðfest. Taldi nefndin að brot Skífunnar hafi verið bæði augljós og alvarleg og að fyrirsvarsmönnum fyrirtækisins hafi mátt vera ljóst að umræddir samningar færu gegn samkeppnislögum og ákvörðun samkeppnisráðs frá 2001. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um fjárhæð stjórnvaldssekta var ennfremur staðfest. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá október 2007 var úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála staðfestur.

Í dómi Hæstaréttar í dag eru framangreind brot staðfest. Taldi Hæstiréttur að brotin hafi verið umfangsmikil, alvarleg og staðið lengi. Jafnframt væri ljóst að sekt sú sem lögð var á Skífuna í eldra málinu hafi ekki haft áhrif til varnaðar. Staðfesti Hæstiréttur því að greiða beri 65 milljónir kr. í sekt vegna brotanna.

Brot Flugþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli staðfest

Í ákvörðun nr. 9/2006 frá 27. mars 2006 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Flugþjónustan á Keflavíkurflugvelli (IGS), dótturfélag FL Group (nú Icelandair Group), hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína við afgreiðslu farþegaflugvéla. Fyrirtækið braut 11. gr. samkeppnislaga þegar það gerði 10 einkakaupasamninga við flugfélög sem lenda á Keflavíkurflugvelli og með því að gera flugfélaginu LTU samkeppnishamlandi tilboð. Samkeppniseftirlitið gerði fyrirtækinu að greiða 80 milljóna króna stjórnvaldssekt til ríkissjóðs. Í júlí 2006 staðfesti áfrýjunarnefnd samkeppnismála með úrskurði nr. 3/2006 þá niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að IGS hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína en ákvað að stjórnvaldssekt skyldi vera 60 milljón kr.

IGS höfðaði síðan mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem þess var krafist að úrskurður áfrýjunarnefndar yrði felldur úr gildi eða stjórnvaldssektin yrði felld niður eða lækkuð verulega. Með dómi frá 24. september 2007 hafnaði Héraðsdómur þessum kröfum IGS. Féllst dómurinn á að IGS hefði brotið gegn samkeppnislögum og að álögð sekt væri í samræmi við alvarleg brot félagsins.

Í dómi Hæstaréttar voru framangreind brot staðfest og bent á að IGS hefði með ólögmætum aðgerðum sótt að eina keppinauti sínum sem staðið hafi höllum fæti. Hins vegar taldi Hæstiréttur að hæfileg sekt IGS væri 40 milljón kr.