5.3.2020

Samkeppniseftirlitið heimilar samstarf keppinauta við uppbyggingu nauðsynlegra fjarskiptainnviða á höfuðborgarsvæðinu

Með ákvörðun í gær heimilaði Samkeppniseftirlitið samstarf Sýnar hf., Ríkisútvarpsins ohf. (RÚV) og Neyðarlínunnar ohf. vegna samstarfs um uppbyggingu á fjarskiptamastri á Úlfarsfelli í Reykjavík.
Aðstaðan sem um ræðir er liður í viðhaldi og frekari innviðauppbyggingu dreifikerfa Sýnar og RÚV fyrir sjónvarps- og útvarpssendingar á höfuðborgarsvæðinu.

 Um er að ræða byggingu og rekstur þessarar tilteknu aðstöðu á Úlfarsfelli, en að öðru leyti reka Sýn og RÚV sín eigin dreifikerfi. Hver og einn aðili mun síðan nýta aðstöðuna sjálfstætt vegna eigin dreifingar eftir því sem við á. Aðrir aðilar á markaði munu jafnframt hafa aðgang að aðstöðunni í samræmi við gjaldskrá og á sömu kjörum og samstarfsaðilar, eins og aðstaðan leyfir.

Um er að ræða undanþágu frá banni 10. gr. samkeppnislaga við samráði keppinauta. Í málinu sýndu erindisbeiðendur fram á að skilyrði 15. gr. samkeppnislaga til undanþágu væru fyrir hendi.
Samkeppniseftirlitið hefur áður heimilað afmarkað samstarf er varðar innviði á fjarskiptamarkaði. Þannig hefur Samkeppniseftirlitið heimilað keppinautum í fjarskiptainnviðum að samnýta framkvæmdir við lagningu ljósleiðara, sbr. t.d. ákvörðun nr. 11/2018 , Beiðni Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. og Mílu ehf. um undanþágu frá samkeppnislögum fyrir lagningu ljósleiðara, og ákvörðun nr. 26/2019 , Beiðni Tengis hf. og Mílu ehf. um undanþágu frá samkeppnislögum fyrir lagningu ljósleiðara. Eftir töku ákvörðunar 11/2018 var frekara samstarf Mílu ehf. og Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. á Selfossi heimfært undir sömu ákvörðun Samkeppniseftirlitsins og er hún því enn í fullu gildi.

Sömuleiðis hefur Samkeppniseftirlitið heimilað Sýn (áður Vodafone) og Nova samstarf um rekstur dreifikerfa gegnum Sendafélagið ehf., sbr. ákvörðun nr. 14/2015 .

Skoða verður í hverju tilviki hvort samstarf keppinauta í rekstri fjarskiptainnviða samræmist kröfum laga, en meginreglan er sú í EES-rétti að viðhalda og styrkja samkeppni í fjarskiptainnviðum, sbr. nýlegt minnisblað eftirlitsins sem aðgengilegt er hér.

Hin nýja undanþága er aðgengileg hér.