Samkeppni Logo

Vegna umfjöllunar um málefni Festi á forsíðu Fréttablaðsins

31. október 2025
snowcap mountain

Í viðtali Fréttablaðsins við framkvæmdastjóra Samtaka
atvinnulífsins á forsíðu Fréttablaðsins í dag kallar hann eftir „stjórnsýsluúttekt
á framferði Samkeppniseftirlitsins“,
sem m.a. þurfi „að svara áleitnum
spurningum um ákvarðanir tengdar verslun Festar hf. á Hellu og óhóflegan
kostnað af kunnáttumanni“
. Kemur fram að „Festi hafi ítrekað gert
efnislegar og rökstuddar athugasemdir við störf óháða kunnáttumannsins og
gagnrýnt óhóflega þóknun sem hann hefur krafið félagið um.“

Í þágu upplýstrar umræðu um samkeppnismál er rétt að
eftirfarandi komi fram:

  • Í samræmi við eftirlitsskyldur sínar gagnvart
    kunnáttumanni hefur Samkeppniseftirlitið í tvígang aflað upplýsinga um hvort
    Festi hafi gert athugasemdir við kunnáttumann vegna kostnaðar sem fyrirtækið
    hefur borið af störfum hans. Hefur Samkeppniseftirlitið fengið staðfest að
    Festi hafi ekki gert athugasemdir við kunnáttumanninn, svo sem vegna
    tímaskýrslna eða vinnubragða, að undanskyldu einu tilviki þar sem gerð var athugasemd
    við færslu einnar vinnustundar á reikningi sem átti að færast á annan lögaðila.
  • Samkeppniseftirlitið hefur veitt fyrirtækjum
    leiðbeiningar um kostnaðaraðhald vegna vinnu óháðra kunnáttumanna /
    eftirlitsnefnda sem starfað hafa samkvæmt sáttum sem fyrirtæki hafa gert við
    eftirlitið. Leiðbeiningarnar eru aðgengilegar hér.
  • Berist Samkeppniseftirlitinu rökstuddar kvartanir
    vegna starfa kunnáttumanns, þar á meðal vegna kostnaðar, mun eftirlitið taka
    erindið til meðferðar og í framhaldinu taka afstöðu til þess. Felli Festi sig
    ekki við niðurstöðu eftirlitsins getur fyrirtækið borið hana undir
    áfrýjunarnefnd samkeppnismála eða dómstóla. Með þessum hætti er réttaröryggi
    fyrirtækisins tryggt til hins ítrasta og málum af þessu tagi skapaður
    lögbundinn farvegur.
  • Minna má á að Festi hefur í einu tilviki borið
    ákvörðun þessu tengdu undir áfrýjunarnefnd samkeppnismála, sbr. úrskurð í
    máli nr. 5/2019
    . Í málinu krafðist Festi ógildingar á ákvörðun
    Samkeppniseftirlitsins um að óháðum kunnáttumanni væri heimilt að afla sér
    utanaðkomandi sérfræðiaðstoðar vegna mats á skilmálum og verðskrá
    Olíudreifingar ehf. eftir viðmiðum sáttarinnar. Áfrýjunarnefnd hafnaði kröfu
    Festi í málinu. Rétt er að taka fram í þessu sambandi að Festi hefur gert tvo
    sjálfstæða verksamninga við sérfræðinga sem hafa verið kunnáttumanni til
    aðstoðar, annars vegar vegna mats á gjaldskrá Olíudreifingar og hins vegar
    vegna aðgengis að heildsölu N1 og verðskrá félagsins.
  • Á starfstíma kunnáttumanns hefur Festi ekki beint öðrum
    formlegum erindum til Samkeppniseftirlitsins vegna starfa hans eða kostnaðar af
    þeim völdum. Á aðalfundi Festi í síðustu viku kom fram að Festi muni „í
    framhaldi aðalfundar óska eftir breytingum á aðkomu óháðs kunnáttumanns að sátt
    félagsins við Samkeppniseftirlitið“.
    Erindi þetta hefur ekki borist
    Samkeppniseftirlitinu. Berist erindið verður það tekið til meðferðar samkvæmt
    framangreindu.

Til viðbótar við framangreint vísar Samkeppniseftirlitið til
fyrri umfjöllunar um þessi mál, sbr. tilkynningu
dags. 24. mars sl.
og tilkynningu
dags. 25. mars 2020
.

Leit

Nýr vefur samkeppni.is

Á dögunum var settur í loftið Beta útgáfa af nýjum vef. Við tökum glöð á móti öllum ábendingum og athugasemdum varðandi nýja vefinn í gegnum formið hér að neðan.

"*" indicates required fields

This field is for validation purposes and should be left unchanged.