4.8.2023

Fyrirspurn Morgunblaðsins í tengslum við athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi

  • Untitled-design-2023-08-03T152612.272

Samkeppniseftirlitinu barst fyrirspurn frá Morgunblaðinu, þar sem óskað er nánar tilgreindra upplýsinga um athugun eftirlitsins á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi og samning við matvælaráðuneytið um skýrslu þess efnis. Í þágu upplýstrar umræðu er svar Samkeppniseftirlitsins birt á heimasíðu þess.

Nánar tiltekið óskar Morgunblaðið svara við eftirfarandi spurningum:

  1. Hvenær og hvernig bar þetta samstarf til, hvert var tilefnið, hver átti frumkvæði og með hvaða hætti og hver er umgjörð þess?
  2. Hefur Samkeppniseftirlitið efnt skyldur sínar skv. 4. gr. samnings um athugunina og greint matvælaráðuneytinu frá stöðu verkefnisins reglulega og þá hve oft?

Þá óskar Morgunblaðið eftir gögnum er varða samninginn og aðdraganda hans.

Rétt er að minna á að í apríl síðastliðnum opnaði Samkeppniseftirlitið upplýsingasíðu á vef sínum þar sem gerð er ítarleg grein fyrir athuguninni og framgangi hennar. Þar er meðal annars birt verkefnaáætlun þar sem gerð er grein fyrir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að ráðast í athugunina, lagagrundvöll, athugunarefni, áfanga, umgjörð og stöðu athugunarinnar.

1. Hvenær bar þetta samstarf til, hvert var tilefnið, hver átti frumkvæði og með hvaða hætti og hver var umgjörð þess?

Fyrri mál er varða stjórnunar- og eignatengsl í sjávarútvegi

Samkeppniseftirlitið hefur um allangt skeið vakið máls á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi í tengslum við samrunamál á markaðnum. Nefna má þrjár ákvarðanir eftirlitsins i þessu sambandi.

  • Í ákvörðun nr. 10/2013, Kaup Síldarvinnslunnar hf. á Bergi-Hugin ehf., voru eigna- og stjórnunartengsl Síldarvinnslunnar við Samherja hf. og Gjögur hf. tekin til skoðunar. Segir svo í ákvörðuninni: "Stærstu eigendur Síldarvinnslunnar eru fyrirtæki sem einnig stunda útgerð og fiskvinnslu. Annars vegar Samherji hf. sem á um 45% hlut og Gjögur hf. sem á um 34% hlut í Síldarvinnslunni. Í ljósi þessa eignarhalds ákvað Samkeppniseftirlitið að víkka út rannsóknina og leggja mat á hvort Samherji (eða eftir atvikum Samherji og Gjögur saman) hefðu yfirráð yfir Síldavinnslunni. Væri það raunin hefði hinn tilkynnti samruni í raun falið í sér samruna Bergs-Hugins við Síldarvinnsluna, Samherja og Gjögurs. Saman hafa þessi fyrirtæki meiri aflahlutdeild en lög um stjórn fiskveiða heimila."

Niðurstaðan var sú að ekki væru forsendur til að slá því föstu að Síldarvinnslan væri undir yfirráðum Samherja og Gjögurs. Hins vegar var ákveðið að hefja athugun á því hvort félögin hefðu brotið gegn banni samkeppnislaga við samkeppnishamlandi samráði. Sú rannsókn var felld niður, þar sem Samkeppniseftirlitið hafði ekki fjárhagslegt bolmagn til að leiða hana til lykta, ekki síst vegna anna við rannsóknir samrunamála.

  • Í ákvörðun nr. 19/2020, Samruni Brims hf., Fiskvinnslunnar Kambs hf. og Grábrókar ehf. og meint yfirráð yfir Brimi hf., voru færð rök fyrir því að Útgerðarfélag Reykjavíkur og tengdir aðilar færu með yfirráð í Brimi. Þannig tók Samkeppniseftirlitið til athugunar hvort að til grundvallar samrunanum lægju víðtækari yfirráð en tilkynnt hefðu verið. Samrunaaðilar mótmæltu því frummati eftirlitsins. Við rannsóknina tók Samkeppniseftirlitið til skoðunar hvort kaup Brims á Kambi og Grábrók hefðu skaðleg áhrif á samkeppni ef hin víðtækari yfirráð yfir Brimi væru lögð til grundvallar. Niðurstaðan var að svo væri ekki og var samruninn samþykktur án athugasemda. Hins vegar var boðað að tekið yrði til frekari athugunar, í öðru máli, í ljósi breyttra aðstæðna og nýrra upplýsinga hvort stofnast hefði til yfirráða í Brimi, sem tilkynna hefði átt lögum samkvæmt.
  • Í ákvörðun nr. 2/2021, Samruni Bergs-Hugins ehf. (Síldarvinnslan hf.) og Bergs ehf., voru tekin til skoðunar stjórnunar- og eignatengsl samstæðu Síldarvinnslunnar við Samherja og Gjögur hf. Í ákvörðuninni er rakið að Samherji og tengdir aðilar eigi rúmlega 48% í Síldarvinnslunni og eigendur Gjögurs rúmlega 34%. Þá segir: "Til viðbótar framangreindu eru vísbendingar um þétt stjórnunar- og eignatengsl milli Samherja, Gjögurs og Síldarvinnslunnar sem birtast m.a. í því að einn af stærstu eigendum Gjögurs hefur þar til nýverið gegnt starfi forstjóra Samherja, samhliða því að eiga eignarhlut í Síldarvinnslunni í gegnum eignarhaldsfélag sem jafnframt er í eigu Samherja. Þetta ásamt fleiru gefur til kynna veruleg tengsl á milli stórra hluthafa í Síldarvinnslunni."

Í málinu var ekki tekin endanleg afstaða til yfirráða, enda reyndist úrlausn á því ekki forsenda afgreiðslu málsins. Hins vegar var boðað að eftirlitið myndi óska frekari upplýsinga og sjónarmiða frá viðkomandi aðilum og stjórnvöldum og taka í framhaldinu afstöðu til þess hvort og þá með hvaða hætti beri að rannsaka nánar möguleg yfirráð og eftir atvikum samstarf hlutaðeigandi fyrirtækja. Þessi athugun hefur ekki verið leidd til lykta vegna framangreindra anna í öðrum störfum eftirlitsins.

  • Með ákvörðun nr. 28/2022, Samruni Síldarvinnslunnar hf. og Vísis hf., voru eignatengsl á vettvangi Síldarvinnslunnar, Samherja og Gjögurs/Kjálkaness tekin til skoðunar út frá tveimur sjónarhornum, þ.e. annars vegar miðað við samrunann eins og hann var tilkynntur eftirlitinu og hins vegar miðað við möguleg sameiginleg yfirráð Samherja og tengdra félaga yfir Síldarvinnslunni. Áður en rannsókn á samrunanum hófst hafði Samkeppniseftirlitið hins vegar kynnt ákvörðun um að hefja þá athugun á stjórnunar- og eignatengslum sjávarútvegsfyrirtækja sem hér er til umfjöllunar.

Samhliða framangreindri umfjöllun um stjórnunar- og eignatengsl í sjávarútvegi hefur Samkeppniseftirlitið bent stjórnvöldum á að nokkur munur væri á efni og framkvæmd samkeppnislaga annars vegar og fiskveiðistjórnunarlaga hins vegar, að því er varðar yfirráð og tengsl milli sjávarútvegsfyrirtækja. Nefna má að í umsögn Samkeppniseftirlitsins frá 8. mars 2021, um drög að frumvarpi um breytingar á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnunar, er hvatt til þess að yfirráðahugtak fiskveiðstjórnunarlaga verði fært nánar til samræmis við ákvæði samkeppnislaga. Í umsögninni segir meðal annars eftirfarandi:

„Núgildandi fiskveiðistjórnunarlög og framkvæmd þeirra kann að leiða til þess að sjávarútvegsfyrirtæki verði talið undir yfirráðum tiltekins eða tiltekinna aðila samkvæmt samkeppnislögum en ekki samkvæmt fyrrgreindu lögunum. Þessi aðstaða þar sem verið er að túlka sama atriði á ólíkan hátt samkvæmt mismunandi lögum getur leitt til misvísandi skilaboða stjórnvalda til fyrirtækja á þessu sviði. Sömuleiðis getur slík mismunandi túlkun leitt til þess að almannahagsmunir verði fyrir skaða.“

Sömu sjónarmið voru ítrekuð í umsögnum til atvinnuveganefndar þann 22. mars 2021, 3. maí 2021 og 14. janúar 2022.

Birtar áherslur Samkeppniseftirlitsins

Af ofangreindu er ljóst að Samkeppniseftirlitið hefur haft tilefni til og lagt áherslu á að kanna nánar stjórnunar- og eignatengsl í sjávarútvegi, en ekki haft fjárhagslegt bolmagn til þess. Þá hefur eftirlitið um nokkra hríð hvatt stjórnvöld til að styrkja lagaumgjörð á vettvangi fiskveiðistjórnunar, í samkeppnislegu tilliti. Í áherslum stjórnar Samkeppniseftirlitsins fyrir árin 2022-2024, sem staðfestar voru í nóvember 2021, kemur eftirfarandi fram:

„Í þriðja lagi liggur fyrir að aðstæður í sjávarútvegi hafa skapað forsendur fyrir öflugum fyrirtækjum sem oft skila góðri arðsemi sem getur orðið þeim og eigendum þeirra grundvöllur til að fjárfesta í fyrirtækjum tengdum sjávarútvegi og á öðrum sviðum atvinnulífs. Ástæða er til þess að fylgjast með þessari þróun og áhrifum hennar á samkeppni.“

Grundvöllur lagður að styrkingu eftirlits og samstarfi eftirlitsstofnana

Í fyrrgreindum áherslum Samkeppniseftirlitsins fyrir árin 2022-2024 (frá nóvember 2021) segir ennfremur:

„Þá vinnur eftirlitið að því að styrkja kerfisbundna yfirsýn yfir eigna- og stjórnunartengsl. Á þessu ári hefur verið leitað samstarfs um þessi málefni við Seðlabanka Íslands og Fiskistofu. Stefnt er að því að ljúka þarfagreiningu á verkefninu á árinu 2022. Samhliða mun eftirlitið greina stjórnunar- og eignatengsl á tilteknum sviðum, að hluta til sem tilraunaverkefni í mótun kerfisbundinnar yfirsýnar.“

Í maí 2021 birti Samkeppniseftirlitið skýrslu nr. 2/2021, Stjórnunar- og eignatengsl fyrirtækja – verkefni Samkeppniseftirlitsins 2008-2021, en þar er að finna yfirlit yfir umfjöllun eftirlitsins um þessi mál, í ákvörðunum, umsögnum, skýrslum o.fl. Þar er einnig fjallað sérstaklega um fyrirhugaða styrkingu eftirlits á þessu sviði. Um þetta segir meðal annars:

„Mikilvægt er að Samkeppniseftirlitið hafi viðvarandi yfirsýn yfir stjórnunar- og eignatengsl og hafi möguleika á að miðla upplýsingum og auka gagnsæi á þessu sviði. Með það í huga vinnur Samkeppniseftirlitið að því að styrkja reglubundna yfirsýn yfir þessi mál. Áformar eftirlitið að koma sér upp verklagi, gagnagrunnum og betri hugbúnaði sem gerir því kleift að hafa reglulegri og viðvarandi yfirsýn og birta sérstakar skýrslur á þeim grundvelli. Hefur eftirlitið leitað upplýsinga og samstarfs hjá mörgum aðilum vegna þessa. Mjög mikilvægt er að Samkeppniseftirlitið hafi fjárhagslegt svigrúm til að styrkja viðvarandi eftirlit sitt með stjórnunar- og eignatengslum að þessu leyti.“

Ennfremur segir í skýrslunni að á árinu 2020 hafi hafist vinna við þarfagreiningu og mótun bættrar eftirlitsumgjarðar að þessu leyti. Hafi eftirlitið kallað eftir ráðgjöf um þetta auk þess sem eftirlitið og aðrar stofnanir á þessum vettvangi séu að kanna frekara samstarf sín á milli. Framvinda verkefnisins ráðist meðal annars af fjárhagslegu svigrúmi.

Þær stofnanir sem þarna er vísað til eru Seðlabanki Íslands, Fiskistofa og Skatturinn. Samtal þessara stofnana hefur snúist um að greina sameiginlega snertifleti, koma auga á leiðir til að tryggja greiða upplýsingamiðlun milli stofnana, eftir atvikum með lagabreytingum, og byggja upp reynslu og þekkingu á þessu sviði.

Athugun Samkeppniseftirlitsins á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi er ætlað að nýtast til að byggja upp upplýsingatækniumgjörð til viðvarandi eftirlits og leiða í ljós tækifæri til frekara samstarfs stofnana.

Aðkoma Samkeppniseftirlitsins að stefnumótunarvinnu matvælaráðuneytisins

Á fyrri hluta árs 2022 snéri matvælaráðuneytið sér til Samkeppniseftirlitsins til þess að afla upplýsinga og sjónarmiða sem nýst gætu við undirbúning stefnumótunarvinnu í sjávarútvegsmálum, sem síðar hófst undir heitinu „Auðlindin okkar“. Í því samtali leitaði ráðuneytið einkum upplýsinga um yfirsýn Samkeppniseftirlitsins yfir stjórnunar- og eignatengsl í sjávarútvegi, en fram kom að yfirsýn yfir þetta hefði mikla þýðingu við mótun stefnu og löggjafar í sjávarútvegsmálum.

Af þessu tilefni greindi Samkeppniseftirlitið frá framangreindri forsögu, þ.e. að stjórnunar- og eignatengsl í sjávarútvegi hefðu komið til skoðunar og að eftirlitið teldi nauðsynlegt (sbr. áherslur stjórnar) að efla yfirsýn sína yfir stjórnunar- og eignatengsl á þessu sviði. Jafnframt væri hafið samtal milli eftirlitsstofnana, að frumkvæði Samkeppniseftirlitsins, sem miðaði að því að efla þessa yfirsýn og auka skilvirkni í eftirliti. Fiskistofa, sem tilheyrir matvælaráðuneytinu, væri aðili að því samtali.

Í samræmi við ábyrgð sína á þessum málaflokki, sem og til undirbúnings framangreindri stefnumótun, tók matvælaráðuneytið þessi mál til nánari skoðunar. Til að greiða fyrir þessari umræðu tók Samkeppniseftirlitið að sér að skrifa minnisblað um greiningu á stjórnunar- og eignatengslum sjávarútvegsfyrirtækja, Voru drög að því minnisblaði send ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins þann 2. maí 2022. Fullgerði ráðuneytið síðan minnisblaðið og nýtti það í umræðu á sínum vettvangi.

Framangreind umræða leiddi til þess að ráðuneytið taldi fýsilegt að gera Samkeppniseftirlitinu kleift að ráðast í athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi og greiða um leið fyrir þéttara samstarfi stofnana sem safna upplýsingum og hafa eftirlit með stjórnunar- og eignatengslum. Til undirbúnings því lagði ráðuneytið drög að viljayfirlýsingu aðila sem að málinu kæmu og samningi við Samkeppniseftirlitið, sem síðar var staðfestur.

Af hálfu Samkeppniseftirlitsins var forsenda fyrir framangreindu að Samkeppniseftirlitið tæki sjálft ákvörðun um athugun á stjórnunar- og eignatengslum á sínum forsendum og í samræmi við áherslur sem áður höfðu verið ákveðnar af hálfu eftirlitsins. Í vinnslu draga að samningi lagði eftirlitið sérstaka áherslu á að samningurinn myndi ekki skerða sjálfstæði eftirlitsins. Útgáfa að drögum að samningi sem birt er nú, ber þetta með sér.

Jafnframt taldi Samkeppniseftirlitið óþarft að gera sérstaka viljayfirlýsingu samhliða samningnum. Í umræðum milli stofnana, þar á meðal í tengslum við kynningu á samningnum, var samstaða um að styrking samstarfs þeirra væri aðskilið verkefni, en að athugunin á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi yrði nýtt til að byggja upp upplýsingatækniumhverfi og láta reyna frekar á samstarf stofnana. Með því fengist reynsla sem nýst gæti í samstarfi þeirra til framtíðar.

Nánar um lagagrundvöll

Samkvæmt d-lið 1. mgr. 8. gr. samkeppnislaga er það hlutverk Samkeppniseftirlitsins „að kanna stjórnunar- og eignatengsl á milli fyrirtækja: skal þetta gert m.a. í því skyni að meta hvort í íslensku viðskiptalífi sé að finna einkenni hringamyndunar, óæskilegra tengsla eða valdasamþjöppunar sem takmarkað geta samkeppni.“ Samkvæmt sömu grein skal stofnunin birta skýrslur um athuganir sínar. Ákvæði 19. gr. samkeppnislaga veita eftirlitinu jafnframt skýra heimild til að afla upplýsinga og gagna vegna slíkrar athugunar.

Enginn vafi leikur því á heimildum og skyldum eftirlitsins til að ráðast í athugun af þessu tagi.

Í samskiptum við matvælaráðuneytið hafði Samkeppniseftirlitið einnig í huga það hlutverk sitt, að vera málsvari samkeppninnar á vettvangi stjórnvalda. Þannig ber Samkeppniseftirlitinu, skv. c-lið 1. mgr. 8. gr. samkeppnislaga, „að gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni og benda stjórnvöldum á leiðir til að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra aðila að markaði“. Leysir eftirlitið þetta verkefni meðala annars af hendi með því að liðsinna stjórnvöldum við undirbúning laga og reglna og stefnumótun á sínu sviði.

Augljóst er að stefnumótun í málaflokknum, þar á meðal að því er varðar stjórnunar- og eignatengsl, getur haft markverð áhrif á samkeppnisaðstæður í sjávarútvegi og öðrum atvinnugreinum. Það er því málefnalegt og í samræmi við hlutverk Samkeppniseftirlitsins að leita leiða til þess að athuganir þess á stjórnunar- og eignatengslum nýtist í stefnumótun stjórnvalda. Virða ber samninginn í því ljósi.

Umgjörð athugunarinnar að öðru leyti

Eins og áður greinir má nálgast ítarlegar upplýsingar um umgjörð athugunarinnar, þar á meðal verkefnaáætlun, á upplýsingasíðu á vef eftirlitsins.

2. Hefur Samkeppniseftirlitið efnt skyldur sínar skv. 4. gr. samnings um athugunina og greint matvælaráðuneytinu frá stöðu verkefnisins reglulega og þá hve oft?

Samkvæmt 4. gr. samningsins greinir Samkeppniseftirlitið matvælaráðuneytinu frá stöðu verkefnisins reglulega á meðan á samningstíma stendur. Í samræmi við þetta hafa ráðuneytinu verið veittar eftirfarandi upplýsingar:

Þann 7. mars 2023 átti forstjóri Samkeppniseftirlitsins símtal við ráðuneytisstjóra þar sem upplýst var um ráðningu starfsmanns í verkefnið, fyrirhugaða skipun ráðgjafarhóps, tengingu við gagnagrunna og fyrirhugaða birtingu verkefnaáætlunar.

Þann 31. mars 2023 sendi forstjóri Samkeppniseftirlitsins ráðuneytinu til kynningar drög að minnisblaði um stöðu athugunarinnar og verkefnaáætlun. Þetta minnisblað er aðgengilegt á upplýsingasíðu Samkeppniseftirlitsins og fylgdi með upplýsingabeiðni til sjávarútvegsfyrirtækja.

Þann 4. apríl 2023 átti forstjóri Samkeppniseftirlitsins fund með matvælaráðherra þar sem gerð var grein fyrir framangreindu minnisblaði.

Með tölvupósti þann 17. apríl 2023 var ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins send slóð á tilkynningu Samkeppniseftirlitsins þar sem upplýsingasíða um athugunina er kynnt. Með tilkynningunni var öllum gefinn kostur á að koma á framfæri ábendingum í tilefni af athuguninni.

Með símtali þann 19. júlí 2023 upplýsti forstjóri Samkeppniseftirlitsins ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins um birtingu tilkynningar á heimasíðu/upplýsingasíðu eftirlitsins um stöðu rannsóknarinnar.

Þær upplýsingar sem matvælaráðherra hefur fengið vegna athugunarinnar eru hinar sömu og birtar hafa verið á vef/upplýsingasíðu Samkeppniseftirlitsins. Rétt er einnig að taka fram að ráðuneytið hefur ekki komið á framfæri athugasemdum í tengslum við þær upplýsingar sem því hafa verið veittar.

Samkeppniseftirlitið mun halda áfram að gera ráðuneytinu grein fyrir framvindu athugunarinnar, samhliða því að upplýsingasíða um hana verður uppfærð. Taka ber fram í þessu sambandi að ráðuneytið hefur hvorki óskað eftir né mun það fá aðgang að þeim upplýsingum sem Samkeppniseftirlitið aflar í athuguninni, að öðru leyti en því sem fram mun koma í skýrslu um athugunina.

3. Aðgangur að gögnum

Morgunblaðið hefur óskað eftir afriti „allra bréfaskipta, tölvupósta, fundargerða og samstarfssamnings þar að lútandi í aðdraganda samningsins og þar til hann var kynntur“. Við nánari eftirgrennslan kom fram að upplýsingabeiðnin væri reist á II. kafla upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá hefur Brim hf. óskað eftir sömu upplýsingum, þ.e. „allra fyrirliggjandi gagna sem tengjast samningnum og samskiptum þessara stjórnvalda af því tilefni“. Byggir upplýsingabeiðni Brims einnig á II. kafla upplýsingalaga.

Í samræmi við framangreindar upplýsingabeiðnir eru nú birt eftirfarandi gögn sem lúta að samskiptum Samkeppniseftirlitsins og yfirstjórn matvælaráðuneytisins er varða undirbúning samnings og þar til hann var kynntur á heimasíðu ráðuneytisins og Samkeppniseftirlitsins þann 5. október 2022.

Í afmörkuðum tilvikum hafa verið afmáðar úr hinum birtu samskiptum upplýsingar sem varða einkamálefni einstakra starfsmanna, sbr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Er nánari grein gerð fyrir því hér á eftir.

  1. Tölvupóstur, dags. 10. mars 2022, frá ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins til forstjóra og aðalhagfræðings Samkeppniseftirlitsins. Meðfylgjandi var greinargerð um stefnumótun á sviði matvæla, þar sem m.a. var fjallað um samkeppnismál. Óskað eftir fundi og vísað til samtals við forstjóra Samkeppniseftirlitsins. Það samtal var óformlegt en gerð er grein fyrir því í málsgrein 13. hér að framan.
  2. Tölvupóstur, dags. 10. mars 2022, frá forstjóra Samkeppniseftirlitsins til ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins, þar sem brugðist er við fyrri pósti frá ráðuneytinu. Það athugist að texti hefur verið afmáður sem varðar einkamálefni starfsmanns eftirlitsins.
  3. Tölvupóstur, dags. 14. mars 2023, á milli ráðuneytisins og eftirlitisins sem miðuðu að því að koma á samtali.
  4. Tölvupóstur, dags. 31. mars 2022, frá ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins til forstjóra og aðalhagfræðings Samkeppniseftirlitsins. Þar kemur fram að farið hafi verið yfir málið innan ráðuneytisins og að ráðherra sé áfram um að þétta eftirlit á þessu sviði. Óskað var eftir fundi um þetta. Svar við þeirri beiðni dróst til 6. apríl, en þann dag og þann 12. apríl voru samskipti um mögulegan fundartíma. Í kjölfarið var óformlegur fundur haldinn á Teams þann 12. apríl. Það athugist að texti hefur verið afmáður sem varðar einkamálefni. Einnig tölvupóstur, dags. 2. maí 2022, frá forstjóra Samkeppniseftirlitsins til ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins, þar sem send eru drög að minnisblaði sem Samkeppniseftirlitið hafði tekið að sér að semja eftir fund þann 12. apríl. Þannig hefur minnisblaðið að geyma samantekt þeirrar umræðu sem fram fór á fundinum. Var minnisblaðið m.a. tekið saman til undirbúnings umfjöllunar innan Stjórnarráðsins og sem grunnur að mögulegum samningi. Á fundinum komu m.a. fram sjónarmið ráðuneytisins að því er varðar kortlagningu á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi. Fóru þau sjónarmið saman við þær áherslur sem Samkeppniseftirlitið hafði áður sett fram opinberlega, sbr. umfjöllun í minnisblaðinu hér að framan.
  5. Tölvupóstur, dags. 18. maí 2022, frá ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins til forstjóra og aðalhagfræðings Samkeppniseftirlitsins, þar sem gerð er grein fyrir því að ráðherra hafi í huga að gera samning við Samkeppniseftirlitið sem geri því kleift að ráðast í athugun. Tölvupóstur, dags. 19. maí 2022, frá forstjóra Samkeppniseftirlitsins til ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins, þar sem brugðist er við tölvupósti ráðuneytisstjóra. Pósturinn ber einnig með sér að eftirlitið var í samskiptum við aðrar eftirlitsstofnanir, en greint er nánar frá aðdraganda þeirra samskipta hér að framan.
  6. Tölvupóstur, dags. 20. maí 2022, frá ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins til forstjóra og aðalhagfræðings Samkeppniseftirlitsins, þar sem rætt er um tillögu að fundartíma.
  7. Tölvupóstur, dags. 25. maí 2022 til 28. maí 2022, á milli ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins og forstjóra og aðalhagfræðings Samkeppniseftirlitsins þar sem rætt er um fundartíma.
  8. Í lok maí funduðu ráðuneytið og Samkeppniseftirlitið að nýju um málið. Í framhaldi af því, eða þann 30. maí 2022, sendi forstjóri Samkeppniseftirlitsins ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins tölvupóst, en í viðhengi hans var efnislega sama minnisblað og sent hafði verði í fyrri pósti þann 2. maí, þó heiti þess hafi verið „viljayfirlýsing“. Ber enda skjalið með sér að vera minnisblað.
  9. Tölvupóstur, dags. 2. júní 2022, frá ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins til forstjóra og aðalhagfræðings Samkeppniseftirlitsins. Í viðhengi er minnisblaðið sem Samkeppniseftirlitið hafði lagt drög að og sent þann 2. júní, en með viðbótum og breytingum. Í póstinum er beðið um yfirlestur og greint frá fyrirhuguðu samráði innan Stjórnarráðsins.
  10. Tölvupóstur, dags. 22. ágúst 2022, frá ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins til forstjóra og aðalhagfræðings Samkeppniseftirlitsins. Í viðhengi með póstinum voru drög að viljayfirlýsingu ráðuneyta og eftirlitsstofnana og samningi ráðuneytisins við Samkeppniseftirlitið. Athuga ber að viljayfirlýsingin var aldrei undirrituð eða borin undir alla aðila hennar, en Samkeppniseftirlitið taldi hana óþarfa, sbr. umfjöllun hér að framan. 
  11. Tölvupóstur, dags. 8. september 2022, frá forstjóra Samkeppniseftirlitsins til ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins. Meðfylgjandi tölvupóstinum eru drög að fyrrgreindum samningi, þar sem eftirlitið hafði gert tillögur að breytingum (auðkenndar í texta). Eins og rakið er í tölvupóstinum miðuðu breytingartillögurnar m.a. að því að standa vörð um sjálfstæði eftirlitsstofnana.
  12. Tölvupóstur, dags. 12. september 2022, frá ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins til forstjóra og aðalhagfræðings Samkeppniseftirlitsins, þar sem send eru ný drög að samningi.
  13. Tölvupóstur, dags. 14. september 2022, frá ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins til forstjóra og aðalhagfræðings Samkeppniseftirlitsins, þar sem send er ný útgáfa að drögum að samningi og þess getið að þau hafi verið samþykkt af ráðherra.
  14. Tölvupóstur, dags. 16. september 2022, frá forstjóra Samkeppniseftirlitsins til ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins. Meðfylgjandi póstinum eru drögin að samningnum, með breytingartillögum í „trakki“. Í póstinum er gerð grein fyrir því að stjórn hafi fjallað um samninginn og breytingartillögur útskýrðar.
  15. Tölvupóstur, dags. 18. september 2022, frá ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins til forstjóra og aðalhagfræðings Samkeppniseftirlitsins, þar sem send eru endanleg drög að samningi, auk þess sem drög að fréttatilkynningu ráðuneytisins fylgja. Fyrr þennan dag sendi hann lokadrög í tölvupósti, sem lagfærð voru með þessum pósti.
  16. Samningurinn var síðan undirritaður þann 19. september 2022. Er hann þegar aðgengilegur á upplýsingasíðu eftirlitsins.
  17. Tölvupóstur, dags. 25. september 2022, frá ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins til forstjóra og aðalhagfræðings Samkeppniseftirlitsins, þar sem gerð er grein fyrir breytingu á drögum að fréttatilkynningu.
  18. Tölvupóstur, dags. 28. september 2022, frá forstjóra Samkeppniseftirlitsins til ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins. Póstinum fylgdu drög að frétt Samkeppniseftirlitsins. Miðaði yfirferð yfir fréttirnar að því að tryggja rétta upplýsingagjöf um samninginn og athugun Samkeppniseftirlitsins. Samkeppniseftirlitið sendi síðan ráðuneytinu uppfærð drög að frétt í tvígang, eftir að hafa kynnt Seðlabankanum og Fiskistofu drög að fréttinni og fengið viðbrögð. Sjá um þetta tölvupóst, dags. 4. október 2022 (ásamt drögum),  tölvupóst, dags. 5. október 2022 (ásamt drögum) og svar ráðuneytis sama dag í tölvupósti.
  19. Tölvupóstur, dags. 5. október 2022, á milli upplýsingafulltrúa matvælaráðuneytisins og forstjóra Samkeppniseftirlitsins, þar sem sendur er hlekkur á annars vegar frétt matvælaráðuneytisins og hins vegar frétt Samkeppniseftirlitsins.