25.5.2021

Samruni Norðlenska, Kjarnafæðis og SAH afurða – Rannsókn málsins og forsendum ákvörðunar gerð ítarlegri skil

Þann 13. apríl 2021 heimilaði Samkeppniseftirlitið samruna Norðlenska matborðsins ehf., Kjarnafæðis hf. og SAH afurða ehf. á grundvelli skilyrða í sátt sem samrunaaðilar gerðu við Samkeppniseftirlitið. Sama dag birti Samkeppniseftirlitið ákvörðun nr. 12/2021 þar sem gerð er nánari grein fyrir rannsókn málsins og þeim skilyrðum sem voru sett samrunanum. Samhliða ákvörðuninni birti eftirlitið fjögur fylgiskjöl (fylgiskjöl lII, III og IV) þar sem gerð var ítarleg grein fyrir þremur könnunum sem eftirlitið lét framkvæma við rannsókn málsins á meðal neytenda og bænda.

Samkeppniseftirlitið hefur í dag birt fylgiskjal I (177 blaðsíður) með ákvörðuninni þar sem gerð er ítarlegri grein fyrir rannsókn málsins, skilgreiningu markaða og mat á áhrifum samrunans. Þar á meðal er gerð ítarleg grein fyrir sjónarmiðum samrunaaðila og annarra hagsmunaaðila, ásamt því sem ályktunum Samkeppniseftirlitsins um samkeppnisleg áhrif samrunans eru gerð nánari skil.

Nánar um skilyrði sem sett voru samrunanum

Líkt og fram kom í frétt Samkeppniseftirlitsins skuldbinda samrunaaðilar sig til að grípa til eftirfarandi aðgerða:

Aðgerðir til að efla og tryggja samningsstöðu bænda.

Sameinað fyrirtæki skuldbindur sig til að standa ekki í vegi fyrir því að bændur færi viðskipti sín frá sameinuðu félagi til keppinauta þess. Jafnframt er tryggður réttur bænda til að semja um afmarkaða þjónustu við sameinað fyrirtæki, s.s. slátrun, en aðra þjónustu við þriðju aðila, s.s. vinnslu.

Aðgerðir er varða verðlagningu einstakra þjónustuþátta.

Sameinað fyrirtæki skuldbindur sig til þess að aðgreina í bókhaldi sínu slátrun og vinnslu og lúta skorðum og reglum við verðlagningu á slátrun og annarri nánar skilgreindri þjónustu og í tiltekinn tíma. Þannig njóti bændur hagræðis sem sameinað fyrirtæki ætlar að ná og þurfi ekki að sæta verðhækkunum sem óhjákvæmilega geta leitt af samkeppnishamlandi samrunum. Skilyrðin eru jafnframt til þess fallin að styðja við samningsforræði bænda og þar með styrkja það aðhald sem þeir geta beitt gagnvart kjötafurðastöðvum.

Aðgerðir sem rjúfa eignatengsl við minni kjörafurðastöðvar með sölu á eignarhlut til bænda.

Sameinað fyrirtæki skuldbindur sig til að selja eignarhluti sína í Fjallalambi annars vegar og Sláturfélagi Vopnfirðinga hins vegar. Skulu hlutirnir seldir til bænda, eða félaga í meirihlutaeigu bænda. Er sölunni settur tiltekinn frestur, sem háður er trúnaði.

Aðgerðir til að koma í veg fyrir fækkun keppinauta og viðsemjenda bænda.

Kjarnafæði hefur átt í viðskiptum við kjötafurðastöðvarnar B. Jensen og Sláturfélag Vopnfirðinga. Sameinað fyrirtæki skuldbindur sig til að eiga í áframhaldandi viðskiptum í tiltekinn tíma við B. Jensen og Sláturfélag Vopnfirðinga. Þessi viðskipti eru mikilvæg fyrir áframhaldandi rekstur þessara fyrirtækja, sem ella kynnu að hverfa af markaði. Miðar framangreind skuldbinding að því að fyrirtækin hafi ráðrúm til að bregðast við breyttum markaðsaðstæðum og starfa áfram sem sjálfstæðir keppinautar.

Aðgerðir til að stuðla að samkeppnislegu sjálfstæði sameinaðs fyrirtækis.

Sameinað fyrirtæki skuldbindur sig til að setja sér setja sér samkeppnisstefnu, grípa til aðgerða til að tryggja eftirfylgni við sáttina í daglegri starfsemi, tryggja óhæði gagnvart keppinautum á vettvangi stjórnar og lykilstarfsmanna og halda skrá yfir öll samskipti við keppinauta. Eru þessar aðgerðir til þess fallnar að stuðla að því að sameinað fyrirtæki virði bannreglur samkeppnislaga og sporna við tjóni sem leitt getur af aukinni samþjöppun í greininni.