9.8.2022

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á kaupum Ardian á Mílu - Hagaðilum gefinn kostur á að setja fram frekari sjónarmið

  • Untitled-design-96-

Með frétt Samkeppniseftirlitsins þann 21. júlí sl. var gerð grein fyrir rannsókn Samkeppniseftirlitsins á kaupum fjárfestingarsjóðsins Ardian á Mílu. Jafnframt var kallað eftir sjónarmiðum um tillögur að aðgerðum sem Ardian hafði sett fram til þess að mæta frummati Samkeppniseftirlitsins á mögulegum skaðlegum áhrifum kaupanna. Samkeppniseftirlitinu bárust ítarleg sjónarmið allmargra aðila, þ.m.t. keppinauta, viðskiptavina og Fjarskiptastofu, auk þess sem Ardian og Síminn hafa brugðist við þeim sjónarmiðum.

Í þágu rannsóknar málsins eru framangreind gögn (án trúnaðarupplýsinga) gerð aðgengileg með frétt þessari og kostur gefinn á frekari sjónarmiðum.

Rannsóknin, frummat Samkeppniseftirlitsins og viðbrögð samrunaaðila

Eins og lýst er í frétt eftirlitsins þann 21. júlí birti Samkeppniseftirlitið aðilum samrunans andmælaskjal, þar sem sett er fram ítarlegt frummat um samkeppnisleg áhrif sölunnar. Var þetta gert að undangenginni ítarlegri rannsókn. Í frummatinu kom fram að fyrirfram mætti gera ráð fyrir því að slit á eignatengslum milli Símans og Mílu séu, sem slík, jákvæð í samkeppnislegu tilliti. Í sölu Símans á Mílu felst hins vegar að fyrirtækin gera með sér heildsölusamning til langs tíma sem bindur þau í viðskipti með margvíslegum hætti. Var það frummat Samkeppniseftirlitsins að í þessu fælust alvarlegar samkeppnishömlur sem ynnu gegn jákvæðum áhrifum samrunans og sköðuðu hagsmuni neytenda og atvinnulífsins á afar mikilvægu sviði viðskipta. Þessu og öðrum ætluðum skaðlegum áhrifum samrunans er nánar lýst hér.

Eftir að hafa fengið andmælaskjalið í hendur sneri Ardian sér til Samkeppniseftirlitsins og óskaði eftir sáttaviðræðum. Eftirlitið féllst á þær viðræður, en markmið þeirra er að kanna hvort tillögur Ardian að skilyrðum geti leyst þau samkeppnislegu vandamál sem ella stafa af samrunanum. Í kjölfarið setti Ardian fram tillögur að skilyrðum „í því skyni að vernda og efla samkeppni á mörkuðum málsins og draga úr þeim áhyggjum sem Samkeppniseftirlitið lætur í ljós í téðu andmælaskjali um samkeppnisleg áhrif þeirra kaupa sem hér um ræðir.“ Ardian og Síminn sendu Samkeppniseftirlitinu einnig athugasemdir við andmælaskjal eftirlitsins.

Markaðspróf – Fjarskiptastofa og hagsmunaaðilar setja fram sjónarmið og Síminn og Adrian bregðast við þeim

Samkeppniseftirlitið ákvað í kjölfarið að framkvæma markaðspróf og sendi 21. júlí sl. bréf til fjarskiptafyrirtækja og Fjarskiptastofu og óskaði eftir sjónarmiðum þessara aðila um tillögur Ardian að skilyrðum og um athugasemdir Símans og Ardian við andmælaskjal eftirlitsins.

Þar sem samruninn varðar breiðan hóp viðskiptavina á fjarskiptamarkaði, þar á meðal neytendur, sem og stjórnvöld og hagsmunaaðila á ýmsum sviðum, taldi Samkeppniseftirlitið jafnframt mikilvægt að gefa öllum kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Kom þetta fram í tilkynningu sem eftirlitið birti á heimasíðu sinni 21. júlí sl.

Meðfylgjandi sjónarmið bárust frá eftirfarandi aðilum:

Fjarskiptastofa ( hér )

Nova ( hér )

Ljósleiðarinn ( hér )

Sýn ( hér )

Snerpa ( hér )

Tengir ( hér )

Farice ( hér )

Íslandsturnar ( hér )

Hringiðan ( hér )

Míla ( hér )

Dregið saman telja flestir framangreindra umsagnaraðila að kaup Ardian á Mílu raski að óbreyttu samkeppni og að tillögur Ardian að skilyrðum dugi ekki til að afstýra þeim samkeppnishömlum.

Samkeppniseftirlitið gaf Ardian og Símanum kost á því að tjá sig um framangreindar umsagnir. Athugasemdir Símans bárust 4. ágúst og Ardian 6. ágúst sl. Í athugasemdum fyrirtækjanna er m.a. mótmælt þeim sjónarmiðum umsagnaraðila að tillögur Ardian dugi ekki til vinna gegn þeim samkeppnishömlum sem leiða af sölunni á Mílu. Til viðbótar hefur Samkeppniseftirlitinu borist bréf frá Ardian, dags. 2. ágúst 2022, þar sem fjallað er nánar um efni þessa máls. Er það aðgengilegt hér.

Gefinn kostur á frekari sjónarmiðum

Mál þetta varðar skipulag fjarskiptamarkaðarins til næstu áratuga og eru því miklir almannahagsmunir í húfi. Í ljósi þessa er þeim sem þess kjósa gefið færi á koma að skriflegum sjónarmiðum við athugasemdir Símans frá 4. ágúst, athugasemdir Ardian frá 6. ágúst eða öðrum sjónarmiðum sem skipt geta máli við rannsókn málsins. Vegna þess skamma tíma sem eftir er af rannsókn málsins er þess óskað að sjónarmið berist eftirlitinu ekki síðar en kl. 17:00 á morgun, 10. ágúst.